Formúla 1

Hamilton gæti ekki verið spenntari fyrir komandi tíma­bili

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lewis Hamilton mun keppa í rauðu á næsta tímabili í Formúlu 1.
Lewis Hamilton mun keppa í rauðu á næsta tímabili í Formúlu 1. Jakub Porzycki/Getty Images

Lewis Hamilton, einn besti ökumaður Formúlu 1 frá upphafi, gæti ekki verið spenntari fyrir nýju upphafi en á næsta keppnistímabili mun hann keppa fyrir hönd Ferrari.

Hamilton vann sjö heimsmeistaratitla á ferli sínum sem ökumaður Mercedes en frá og með 1. janúar á þessa ári er hann ökumaður Ferrari. Hann nýtti samfélagsmiðilinn Linkedin til að tjá sig um vistaskiptin. 

Hann segist spenntur fyrir nýjum tækifærum og sé enn hungraður. Þá mælti hann með því að ef fólk væri að íhuga breytingar árið 2025 væri bara að taka þeim opnum örmum.

„Hvort sem þú ert að íhuga að skipta um starfssvið, læra eitthvað nýtt eða takast á við nýja áskorun mundu þá hversu kraftmikið það er að finna sig upp á nýtt. Næsta tækifæri þitt er alltaf innan seilingar.“

Hamilton, sem fagnar fertugsafmæli sínu á næstu dögum, myndar á komandi tímabili eitt sterkasta teymi ökumanna í Formúlu 1 ásamt Charles Leclerc. Þá var Ferrari nærri búið að vinna heimsmeistaratitil bílasmiða og stefnir á að gera gott betur á komandi leiktíð.

Formúlu 1 tímabilið árið 2025 hefst í Melbourne í Ástralíu helgina 14. til 16. mars næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×