Innlent

Starf fram­kvæmda­stjóra Mannréttindastofnunar aug­lýst

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Embætti framkvæmdastjóra Mannréttindastofnunar Íslands er laust til umsóknar.
Embætti framkvæmdastjóra Mannréttindastofnunar Íslands er laust til umsóknar. vísir/vilhelm

Embætti framkvæmdastjóra Mannréttindastofnunar Íslands er laust til umsóknar á vef Stafræns Íslands. Stjórn Mannréttindastofnunar Íslands mun skipa framkvæmdastjóra stofnunarinnar til fimm ára í senn.

Í auglýsingunni á vef Ísland.is segir að leitað sé að öflugum og faglegum leiðtoga til að leiða stofnunina, sem hefur það meginhlutverk að efla og vernda mannréttindi á Íslandi. 

Frumvarp um Mannréttindastofnun Íslands var samþykkt á Alþingi í júní í fyrra. Stofnunin tók til starfa þann 1. janúar. 

Fram kemur að Mannréttindastofnun Íslands sé sjálfstæð í störfum sínum og óháð fyrirmælum frá öðrum, þar með talið Alþingi. Stofnunin taki ekki ákvarðanir í einstökum málum, hafi eftirlit með framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og sinni réttindagæslu fyrir fatlað fólk. 

Á vefnum kemur fram að skipað verði í embættið frá 1. apríl. Sérstök hæfnisnefnd, skipuð þremur einstaklingum, verði stjórn Mannréttindastofnunar Íslands til ráðgjafar um hæfni og almennt hæfi umsækjenda.

Helstu verkefni og ábyrgð framkvæmdastjóra Mannréttindastofnunar eru meðal annars að vinna að því að opinberir aðilar og einkaaðilar virði mannréttindi á öllum sviðum samfélagsins, annast daglega starfsemi og rekstur stofnunarinnar og hafa eftirlit með framkvæmd laga og alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda og eftir atvikum koma með ábendingar varðandi fullgildingu eða aðild að alþjóðlegum skuldbindingum sem eru til þess fallnar að tryggja mannréttindi.

Hægt er að kynna sér helstu verkefni og hæfniskröfur starfsins á vef Stafræns Íslands




Fleiri fréttir

Sjá meira


×