Erlent

Í fangelsi fyrir að sofa hjá ári yngri stúlku

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Samræðisaldur í Dúbaí er 18 ár.
Samræðisaldur í Dúbaí er 18 ár. Paula Bronstein/Getty

Ungur maður frá Bretlandi hefur verið fangelsaður í Dúbaí, fyrir að eiga samræði við 17 ára stúlku. Bresk stjórnvöld eru með málið á sínu borði.

Hinn 18 ára gamli Marcus Fakana afplánar nú eins árs fangelsisdóm í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, eftir því sem BBC greinir frá.

Fakana átti þar samræði við breska stúlku sem er ári yngri en hann sjálfur. Móðir stúlkunnar tilkynnti hann til yfirvalda í Dúbaí þegar hún sá skilaboð milli hans og dóttur hennar, eftir komuna aftur til Bretlands. Samræðisaldurinn í Dúbaí er 18 ár.

Krefjast lausnar

Vinir og fjölskylda Fakana söfnuðust saman í Westminster í London í dag og kröfðust lausnar hans. Utanríkisþjónusta Bretlands hefur þegar tilkynnt að hún sé með mál bresks manns í Sameinuðu arabísku furstadæmunum til skoðunar. 

Fakana var handtekinn í september en hafði gengið laus í Dúbaí gegn tryggingu og dvalið í tímabundnu húsnæði þar, sem foreldrar hans greiddu fyrir. Nú segja forsvarsmenn samtakanna Detained in Dubai að Fakana dúsi í Al Awir-fangelsinu í útjaðri Dúbaí.

Líf ungs manns lagt í rúst

Radha Stirling, talskona samtakanna, segir fangelsisdóminn yfir Fakana óskiljanlegan.

„Þetta kallar ekki á ársfangelsi, þetta kallar ekki á að þessi fjölskylda verði rifin í sundur og framtíð þessa unga manns lögð í rúst.“

Hún sé hins vegar fullviss um að áfrýjun málsins muni bera árangur, og Fakana muni fá að snúa aftur heim til Lundúna. 

„Spurningin er bara hversu langan tíma það mun taka og hversu mikið þarf til, hvort það verði afskipti breska ríkisins eða stuðningur almennings sem geri stjórnvöldum í Dúbaí ljóst að þetta gangi ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×