Erlent

Af­sögn Tru­deau sögð yfir­vofandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Justin Trudeau hefur verið forsætisráðherra Kanada frá 2015. Stjórnartíð hans virðist nú að renna sitt skeið.
Justin Trudeau hefur verið forsætisráðherra Kanada frá 2015. Stjórnartíð hans virðist nú að renna sitt skeið. Vísir/EPA

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, er sagður líklegur til þess að segja af sér í þessari viku. Frjálslyndi flokkur hans á undir högg að sækja í skoðanakönnunum og æ fleiri þingmenn flokksins hvetja Trudeau til þess að stíga til hliðar.

Heimildir Reuters-fréttastofunnar herma að líkurnar fari vaxandi á að Trudeau segi af sér þó að hann hafi enn ekki ákveðið sig endanlega. Kanadíska blaðið Globe and Mail heldur því fram að hann gæti sagt af sér strax í dag og að minnsta kosti fyrir neyðarfund þingflokks Frjálslynda flokksins á miðvikudag.

Kosið verður í Kanada á þessu ári en skoðanakannanir benda til þess að Frjálslyndi flokkurinn fari illa út úr þeim. Því hefur þrýstingur á Trudeau innan flokksins farið vaxandi. Globe and Mail segir ekki ljóst hvort Trudeau véki strax sem forsætisráðherra eða sæti áfram þar til eftirmaður hans sem flokksleiðtogi væri fundinn.

Staða Trudeau veiktist enn þegar hann reyndi að ýta Chrystiu Freeland, fjármálaráðherra, til hliðar í desember. Hún hafði verið einn nánasti bandamaður Trudeau en verið andsnúin hugmyndum hans um aukin ríkisútgjöld. Freeland sagði af sér frekar en að sætta sig við að vera lækkuð í tign.

Trudeau hefur verið leiðtogi Frjálslynda flokksins frá 2013. Hífði hann flokkinn upp úr sögulegri lægð og tók við embætti forsætisráðherra árið 2015.


Tengdar fréttir

Fjármálaráðherra Kanada segir af sér

Chrystia Freeland fjármálaráðherra Kanada sagði af sér í dag. Ástæðuna sagði hún ágreining milli sín og Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×