Viðskipti innlent

Aldrei jafn margir ferðast með Icelandair

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Aðeins sex prósent heildarfarþega í desember voru á ferð innanlands.
Aðeins sex prósent heildarfarþega í desember voru á ferð innanlands. Vísir/vilhelm

Icelandair sló farþegamet árið 2024 en flogið var með tæplega fimm milljónir farþega. Metsætanýting var í desember en átján prósenta munur var á milli ára.

Níu prósent aukning var í fluttum farþegum hjá Icelandair á milli ára en ferðuðust 4,7 milljónir farþegar með flugfélaginu árið 2024. Farþegum í desember fjölgaði þá um átján prósent á milli ára, 312 þúsund farþegar alls og er það metsætanýting.

„Desember markaði nýtt upphaf fyrir Icelandair en í mánuðinum flugum við fyrsta áætlunarflugið á glænýrri Airbus flugvél okkar og fluttum inn í nýja Icelandair húsið í Hafnarfirði,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu.

„Horfur fyrir árið 2025 eru góðar og við búumst við 8% vexti á milli ára, þar sem við leggjum sérstaka áherslu á vöxt utan háannatíma ársins sem gerir okkur kleift að nýta innviði félagsins betur.“

Í desember voru 28 prósent farþega á leið til Íslands en nítján prósent frá landinu. Farþegar innanlands voru sex prósent eða tæplega nítján þúsund ferðalangar. Langflestir, eða 47 prósent farþega, nýttu Icelandair í millilendingu á ferðalagi sínu í desember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×