Fótbolti

Hjörtur þriðji úr vörn lands­liðsins í Grikk­landi

Sindri Sverrisson skrifar
Hjörtur Hermannsson er orðinn leimkaður Volos í Grikklandi.
Hjörtur Hermannsson er orðinn leimkaður Volos í Grikklandi. volosfc

Eftir þrjú og hálft ár á Ítalíu er landsliðsmaðurinn Hjörtur Hermannsson mættur til Grikklands og orðinn leikmaður Volos.

Gríska félagið greindi frá komu Hjartar í gær en þessi 29 ára varnarmaður, sem á að baki 29 A-landsleiki, kemur til Volos frá Carrarese í ítölsku B-deildinni.

Hjörtur staldraði því stutt við hjá Carrarese en hann fór til félagsins eftir þrjú ár hjá Pisa í sömu deild, og kom aðeins við sögu í þremur deildarleikjum í vetur.

Grikkland er fimmta landið sem Hjörtur flyst til eftir að hafa byrjað meistaraflokksferil sinn með Fylki í Árbænum. Hann hefur áður spilað í Hollandi, Svíþjóð, Danmörku og svo á Ítalíu.

Tveir félagar Hjartar úr vörn íslenska landsliðsins eru einnig í Grikklandi því þeir Sverrir Ingi Ingason og Hörður Björgvin Magnússon eru leikmenn Panathinaikos. Hörður hefur þó ekki spilað í deildinni síðan í september 2023, eftir að hafa slitið krossband í hné.

Eftir þrjú töp í síðustu fjórum leikjum er Volos með 17 stig eftir 17 leiki í grísku úrvalsdeildinni, jafnt Levadiakos og Panserraikos í 10.-12. sæti af 14 liðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×