Janus Daði varð þrítugur á nýársdag en var þó ekkert að missa sig í hátíðarhöldum vegna stórafmælisins. Þá tekur hann ekki nærri sér að detta á fertugsaldur.
„Það er kannski aðeins erfiðara að standa upp á morgnana úr rúminu eftir að maður er búinn að kasta sér á parketið. Það er gott að eldast, mér líður vel og bara spenntur fyrir komandi ári,“
„Er þetta ekki bara beauty? Það þýðir ekkert. Mér finnst ég hafa verið hundgamall í dálítinn tíma. Núna er fínt að bakka það upp með einhverri tölu,“ segir Janus Daði.
Strákarnir okkar spiluðu æfingaleik við Svía í gærkvöld, sem lauk með 31-31 jafntefli. Það var fyrri leikur liðanna af tveimur fyrir komandi mót. Menn eru að stilla saman strengi áður en mótið hefst á fimmtudag í næstu viku.
„Þetta er að finna ákveðinn rytma og þreifa hvor á öðrum til að verða að alvöru liði. Við höfum sýnt það gegnum undanfarin ár að við erum með hörkueinstaklinga sem spila vel í sínum félagsliðum en erum alltaf að reyna að finna blönduna til að verða alvöru unit, landsliðið,“ segir Janus Daði sem vill sjá liðið gera betur en á EM í fyrra.
„Ég held að ég tali fyrir alla þegar ég segi að þetta er það mikilvægasta sem við eigum, það er landsliðið okkar. Það eiga sér allir sína drauma og við erum aldir upp við ákveðna gullkynslóð í handbolta. Þetta skiptir okkur rosa máli og við erum allir meðvitaðir um hvernig síðasta mót fór.“
Fleira kemur fram í viðtalinu sem má sjá í heild að neðan.