Fjölskylda Bryant greindi frá andlátinu í tilkynningu á fimmtudag. Þar kom fram að Anita hefði látist á heimili sínu í Edmond í Oklahoma þann 16. desember 2024.
„Megi minning Anitu og trú hennar á eilíft líf gegnum Krist hugga alla þá sem umlykja hana,“ sagði í tilkynningunni. Bryant lætur eftir sig fjögur börn, tvær stjúpdætur og sjö barnabörn.
Víða hötuð vegna baráttu sinnar
Anita Bryant fæddist þann 25. mars 1940 í Barnsdall í Oklahoma. Hún var valin Ungfrú Oklahoma þegar hún var átján ára gömul og varð í þriðja sæti í keppninni um Ungfrú Ameríku.

Árið 1959 hóf hún tónlistarferill sinn með plötunni Anita Bryant og skaust hratt í kjölfarið upp á stjörnuhimininn með lögum á borð við Till There Was You, In My Little Corner of the World og Paper Roses. Frá 1961 til 1968 fór hún gjarnan í tónleikaferðalög með Bob Hope að skemmta bandaríska hernum og hlaut hún síðar silfurorðu þjóðvarðliðsin og gullorðu VFW (Veterans of Foreign Wars) fyrir skemmtunina.
Hún varð síðar talskona Florida Citrus og bjó til frasann „Morgunmatur án appelsínusafa er eins og dagur án sólar“.
Orðstír Bryant breyttist töluvert á áttunda áratugnum þegar hún varð virk baráttukona gegn réttindum samkynhneigðra. Hún leiddi þar herferðina „Bjargið börnunum okkar“ sem barðist fyrir því að fella reglugerð í Dade-sýslu úr gildi sem bannaði mismunun á forsendum kynhneigðar.

„Ég blandaði mér bara í málið því þeir voru að biðja um sérstök forréttindi sem brutu í bága við lög Flórída, svo ekki sé minnst á lög Guðs,“ sagði hún í viðtali við Playboy árið 1978.
Baráttuhópar fyrir réttindum samkynhneigðra sniðgengu appelsínusafa frá Flórída markvisst eftir yfirlýsingar hennar og er talið að hún hafi einnig orðið af um hálfri milljón Bandaríkjadala vegna baráttu sinnar.
