Sport

Ólympíu­meistarinn skipti um nafn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nils van der Poel með Ólympíugullið um hálsinn á leikunun í Peking í febrúar 2022.
Nils van der Poel með Ólympíugullið um hálsinn á leikunun í Peking í febrúar 2022. Getty/ Jean Catuffe

Nils van der Poel var ein stærsta íþróttahetja Svía fyrir þremur árum síðan en nú hefur orðið stór breyting. Hann vill ekki lengur heita Van der Poel.

Van der Poel varð tvöfaldur Ólympíumeistari í skautahlaupi á Ólympíuleikunum i Peking 2022.

Hann tók gullið bæði í fimm þúsund og tíu þúsund metra skautahlaupi. Hann á enn heimsmetið í báðum greinum. Stuttu síðar vann hann heimsmeistaratitilinn í samanlögðu.

Í lok tímabilsins tilkynnti að hann væri hættur, hætti sem sagt á toppnum.

Hann hefur líka forðast sviðsljósið síðan og ekki veitt viðtal í mörg ár.

Það var samt eins og Van der Poel nafnið væri enn að kalla á of mikla athygli eftir afrek hans á skautasvellinu.

Van der Poel ákvað því að breyta um nafn. Hann tók upp eftirnafn móður sinnar sem er Svensson.

Sænskir fjölmiðlar komust að því að hann hafi breytt þessu hjá sænsku þjóðskránni í nóvember.

Það er líka öruggt að það verður mun erfiðara að finna Svensson en Van der Poel.

Svensson er nefnilega eitt algengasta eftirnafnið í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×