Fótbolti

Frá­bær sigur hjá Cecilíu Rán og Napoli jók for­ystuna á ný

Smári Jökull Jónsson skrifar
Cecilía Rán Rúnarsdóttir hefur staðið sig frábærlega með Inter á sinni fyrstu leiktíð eftir komuna frá Bayern München.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir hefur staðið sig frábærlega með Inter á sinni fyrstu leiktíð eftir komuna frá Bayern München. Getty/Mairo Cinquetti

Cecilía Rán Rúnarsdóttir var í marki Inter sem vann sigur í toppslag ítölsku úrvalsdeildarinnar. Í Serie A-deild karla náði Napoli að auka forystu sína á toppnum.

Cecilía Rán hefur leikið frábærlega með Inter á tímabilinu til þessa og er orðin algjör lykilmaður í liðinu eftir að hafa glímt við erfið meiðsli síðustu misseri.

Í dag mætti Inter liði Roma en liðin voru jöfn að stigum í 2. - 3. sæti deildarinnar. Roma hefur unnið ítalska meistaratitilinn síðustu tvö tímabilin.

Elisa Polli kom Inter í forystu á 11. mínutu leiksins en leikið var í Mílanó. Hin danska Frederike Thogersen jafnaði metin fyrir Roma tveimur mínútum síðar en á 24. mínútu fékk Valentina Giacinti í liði Roma rautt spjald og meistararnir því einum færri.

Það nýttu gestirnir úr Inter sér í síðari hálfleik. Þá skoraði Annamaria Serturini sigurmarkið og tryggði liðinu mikilvægan sigur. Inter er nú eitt í 2. sæti deildarinnar með 31 stig og er sjö stigum á eftir toppliði Juventus.

Spenna á toppnum

Í Serie A-deild karla minnkaði Inter forskot Napoli á toppnum niður í eitt stig fyrr í dag eftir sigur á Venezia. Napoli fékk hins vegar tækifæri í kvöld til að auka muninn á ný þegar liðið mætti Verona á heimavelli.

Leikurinn byrjaði vel fyrir heimamenn því Lorenzo Montipo skoraði sjálfsmark strax á 5. mínútu og Napoli því komið 1-0 yfir. Þannig var staðan í leikhléi en á 61. mínútu skoraði hinn kamerúnski Frank Anguissa annað mark Napoli og toppliðið komið í góða stöðu.

Frank Anguissa fagnar hér marki sínu.Vísir/Getty

Fleiri urðu mörkin ekki og forysta Napoli á toppnum því orðin fjögur stig á ný. Liðið hefur leikið tuttugu leiki í Serie A-deildinni en Inter tveimur leikjum færra og hefur því tapað færri stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×