Tónlist

Bestu vinir sem fá að vinna við það sem þeir elska

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Strákarnir í Tónhyl Akademíu stefna langt.
Strákarnir í Tónhyl Akademíu stefna langt. Aðsend

Strákarnir í Tónhyl Akademíu eru allir í kringum átján ára aldur og lifa og hrærast í heimi tónlistarinnar. Þeir voru að senda frá sér plötu sem hefur slegið í gegn og á sama tíma seldu þeir upp á tónleika í Gamla Bíói. Blaðamaður ræddi við þessa upprennandi tónlistarmenn.

Síðastliðin ár hafa strákarnir verið iðnir við útgáfu á tónlist og hafa sömuleiðis komið víða fram. Þeir sendu frá sér tónlistarmyndband í fyrra við lagið Ráðinn og héldu stórt frumsýningarteiti í Smárabíói.

Platan þeirra KAPITAL kom út 10. janúar síðastliðinn og hafa nokkur lög náð góðri hlustun á streymisveitunni Spotify.

Hér má heyra vinsælasta lag plötunnar LOKUÐ AUGU:

Klippa: Tónhylur Akademía - Lokuð augu

Hvernig leggjast tónleikarnir í ykkur?

Gríðarlega vel. Við erum með það markmið að þessir tónleikar verði miklu betri en þeir síðustu. Fleiri ljós, ný tónlist og fleira.

Bjuggust þið við því að selja upp svona hratt?

Við héldum tónleika í fyrra sem gengu vel en maður veit aldrei við hverju maður má búast. Við gerðum aldrei ráð fyrir að þetta myndi gerast svona hratt.

Hvað finnst ykkur hafa verið lærdómsríkast í tónlistarbransanum síðan þið byrjuðuð?

Það sem okkur finnst hafa verið lærdómsríkt er hvað þolinmæðin skiptir miklu máli og það að gefast ekki upp. Líka hvað það skiptir miklu máli að leggja inn vinnuna því maður fær oftast út það sem maður leggur í hlutina.

Hvað finnst ykkur skemmtilegast við tónlistina?

Það er skemmtilegast að fá að vinna við það sem maður hefur áhuga á með bestu vinum sínum. Öll skrefin í ferlinu eru líka skemmtileg, allt frá því að semja yfir í að koma henni út og svona. Það er líka gaman að fá viðbrögð frá fólki þegar tónlistin kemur út. Svo verðmætt að fá að tjá sig í gegnum tónlistina.

En mest krefjandi?

Það er erfiðast þegar maður er með lokafrest (e. deadline) og sá tími er að nálgast. Þá kemur oft stress og maður fer að efast um hlutina og svona.

Hvernig gekk að semja EP plötuna? Voruð þið allir sammála í ferlinu?

Það gekk mjög vel að semja plötuna. Það eru auðvitað ekkert alltaf allir sammála en við erum nokkuð góðir í að komast að niðurstöðu saman sem hópur. 

Það var samt í rauninni aldrei tekin einhver ákvörðun að semja lög fyrir plötu heldur eru þetta meira lög sem voru valin út frá fullt af lögum sem við höfum verið að semja.

Hvaðan sóttuð þið innblásturinn fyrir lögin?

Bæði úr daglegu lífi og svo bara frá hvor öðrum.

Hvað er annað fram undan?

Fram undan er bara að gera meiri tónlist og spila meira. Við erum líka sjálfir að skoða það að gefa út meira sóló og byggja upp okkar eigin feril samhliða því að vinna með hópnum.

Hvert stefnið þið?

Stefnum bara á að halda áfram að gera góða tónlist og byggja upp tónlistarferilinn.

Tónhyl Akademíu skipa:

Söngvarar/rapparar:

Kristján Ómarsson Saenz, Helgi Trausti Stefánsson, Maron Birnir Reynisson, Theodór Gísli Sigurgeirsson, Lindi Banushi og Egill Airi Daníelsson. 

Pródúserar:

Tryggvi Þór Torfason og Ísak Örn Friðriksson.

Albúmcover, videó og fleira:

Ívar Páll Arnarsson og Stefán Logi Hermannsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.