Sport

Flytja heimsleikana í CrossFit til New York fylkis

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haley Adams er farin aftur að keppa eftir að hafa tekið sér frí til að huga að andlegri heilsu sinni.
Haley Adams er farin aftur að keppa eftir að hafa tekið sér frí til að huga að andlegri heilsu sinni. Getty/Ian MacNicol

Heimsleikarnir í CrossFit yfirgefa hitann í Texas fylki og verða haldnir mun norðar á þessu ári.

CrossFit samtökin hafa nú gefið út að heimsleikarnir hafa fundið sér nýjan samastað. Heimsleikarnir 2025 fara fram í borginni Albany í New York fylki en þeir fara fram frá föstudeginum 1. ágúst til sunnudagsins 3. ágúst í ár.

Heimsleikarnir eru vanir því að byrja á miðvikudögum eða fimmtudögum en nú standa þeir aðeins yfir þrjá daga.

Það eru því miklar breytingar í ár eftir hörmulegt ár í fyrra.

Albany er hundrað þúsund manna borg í miðju New York fylki, hún stendur við Hudson fljót, norður af New York borg og vestur af Boson borg.

Það verður líka engin vatnsgrein á dagskrá ekki frekar vettvangsgreinar ef marka má fréttatilkynningu samtakanna. Það kemur fram að öll keppnin fari fram í MVP Arena í Albany.

Heimsleikarnir í fyrra fóru fram í Fort Worth í Texas en sá hryllilega atburður varð að keppandi drukknaði í fyrstu grein og í kjölfarið hætti stór hluti keppenda. Leikarnir voru samt kláraðir.

Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem keppnin fór fram í Texas fylki en árin á undan höfðu heimsleikarnir farið fram mun norðar í Madison í Wisconsin fylki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×