Erlent

Ný eld­flaug Bezos náði á spor­braut í fyrstu til­raun

Samúel Karl Ólason skrifar
New Glenn eldflauginni skotið á loft í fyrsta sinn frá Cape Canaveral í Flórída.
New Glenn eldflauginni skotið á loft í fyrsta sinn frá Cape Canaveral í Flórída. AP/John Raoux

Blue Origin, geimferðafyrirtæki auðjöfursins Jeffs Bezos, sendi í morgun geimfar á braut um jörðu í fyrsta sinn, nærri því aldarfjórðungi eftir að fyrirtækið var stofnað. Það var gert með eldflauginni New Glenn eftir að fyrsta geimskoti hennar hafði ítrekað verið frestað.

Eldflaugin bar enga gervihnetti eða slíkt í þessu geimskoti og var markmið þess að afla sem mestra upplýsinga um geimflaugina og getu hennar fyrir frekari geimskot.

New Glenn er stærðarinnar eldflaug sem á að vera endurnýtanleg og á fyrsta stig hennar að lenda aftur á jörðinni eftir geimskot. Þannig vilja forsvarsmenn Blue Origin spara mikla fjármuni við hvert geimskot en fyrirtækið SpaceX, sem er í eigu auðjöfursins Elons Musk, er með mikið forskot á því sviði.

Eldflauginni er ætlað að koma þungum farmi á braut um jörðu eða lengra út í sólkerfið en New Glenn stæðan er 98 metrar á hæð og sjö metra þykk. Fyrsta stigið keyrir á metani og það efra á fljótandi vetni.

Það eina sem virðist ekki hafa engið eftir er að fyrsta stig New Glenn, sem kallast „So you‘er telling me there‘s a chance“, eftir frægri línu úr myndinni Dumb and Dumber, átti að snúa aftur til jarðar og lenda á drónaskipinu Jacklyn undan ströndum Flórída en gerði það ekki.

Í yfirlýsingu frá Blue Origin segir að legið hafi fyrir að ólíklegt væri að þeim myndi takast að lenda fyrsta stiginu í fyrstu tilraun. Starfsmenn fyrirtækisins muni þó læra af reynslunni og reyna aftur í næsta geimskoti New Glenn í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×