Þorsteinn kom inn á í fyrsta sinn á stórmóti eftir um tuttugu mínútna leik í kvöld, en hvernig voru taugarnar?
„Eins og þið sáuð þá kastaði ég boltanum eiginlega út af í fyrstu sókninni,“ sagði Mosfellingurinn léttur í bragði en viðtalið við hann má sjá hér að neðan.
„En eftir eina eða tvær sóknir var maður kominn inn í leikinn og í fíling. Þetta tók eina eða tvær sóknir en svo var ég rólegur,“ sagði Þorsteinn í viðtali við Henry Birgi Gunnarsson í Zagreb.
Þorsteinn fékk snemma tveggja mínútna brottvísun og spilaði í raun ekki mikið í sínum fyrsta leik á stórmóti. Hefði hann viljað meira?
„Auðvitað vill maður spila. Ég held að allir vilji spila allan leikinn. En ég er mjög þakklátur fyrir að spila og bjóst þannig lagað séð ekki við neinu meira,“ sagði Þorsteinn sem skoraði stórglæsilegt mark undir lokin:
„Auðvitað ætlaði ég að skora úr fyrsta skoti. Ég setti hann bara sláin inn,“ en hvað má búast við mörgum mörkum gegn Kúbu á laugardaginn?
„Ég mun skjóta þegar ég fæ tækifæri og við sjáum hvernig það fer,“ sagði Þorsteinn og passaði sig á að koma ekki með nein frekari loforð.