Körfubolti

Leikjahæst frá upp­hafi: „Loksins núna að hætta að gráta, þannig ekki láta mig byrja aftur“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Fyrir leik veitti Svali Björgvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Vals, Guðbjörgu viðurkenningu við tilefnið. 
Fyrir leik veitti Svali Björgvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Vals, Guðbjörgu viðurkenningu við tilefnið.  vísir / anton brink

„Helvíti skemmtilegur leikur, mikil barátta. Mikil orka sem fór í hann. Þannig að ég er bara mjög sátt, en mjög þreytt,“ sagði Guðbjörg Sverrisdóttir eftir 63-61 sigur Vals gegn Aþenu í leik sem gerði hana að leikjahæstu konu í sögu úrvalsdeildarinnar í körfubolta.

Hún endaði á því að tryggja sigur sinna kvenna í kvöld, með því að verjast leikmanni Aþenu vel undir blálok leiks og sækja síðan villu. Það var bókstaflega ekki hægt að biðja um reynslumeiri leikmann til að loka leiknum.

„Taugarnar voru bara fínar. Ég fékk eitthvað högg á puttann, akkúrat í skothöndina, þannig að ég var bara að hugsa um að láta það ekki trufla mig, en lét það trufla mig aðeins í fyrra vítinu. En náði mér í seinna.“

Falleg stund átti sér síðan stað eftir leik, og fyrir leik reyndar líka, þegar allir Valsarar í húsinu á Hlíðarenda hópuðust að Guðbjörgu í þakklætisskyni.

„Ég er rosalega meyr og þakklát. Loksins núna að hætta að gráta, þannig ekki láta mig byrja aftur. Nei ég er bara rosalega þakklát fyrir að geta ennþá verið að spila og gera það sem mér finnst skemmtilegast. Valsfjölskyldan er yndisleg, ég er bara rosalega þakklát,“ sagði hún þá snöktandi.

Þetta eru orðnir yfir þrjú hundruð leikir sem Guðbjörg hefur spilað á sínum átján ára langa ferli í deildinni og hún er ekkert farin að huga að því að hætta.

„Ég þarf allavega að passa metið mitt, þannig að ég verð að gera eitthvað meira“ sagði hún létt í bragði.

„Neinei, á meðan þetta er skemmtilegt og líkaminn er ekki að segja stopp. Þá held ég bara að ég haldi áfram. Sjáum til hvað það verða mörg ár í viðbót,“ sagði hún svo að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×