Um­fjöllun: Egypta­land - Ís­land 24-27 | Annar frá­bær sigur og átta liða úr­slit í sjón­máli

Ingvi Þór Sæmundsson og Sindri Sverrisson skrifa
Fyrirliðinn Aron Pálmarsson átti frábæran leik í kvöld fyrir framan magnaða stuðningsmenn.
Fyrirliðinn Aron Pálmarsson átti frábæran leik í kvöld fyrir framan magnaða stuðningsmenn. VÍSIR/VILHELM

Íslenska karlalandsliðið í handbolta vann frábæran sigur gegn Egyptalandi í fyrsta leik sínum í milliriðli 4 á HM. Bæði lið tóku með sér fjögur stig úr riðlakeppninni en Ísland er nú efst í milliriðlinum með sex stig.

Viggó Kristjánsson var markahæstur Íslands með níu mörk og Aron Pálmarsson átti einnig magnaðan leik og skoraði átta. Viktor Gísli Hallgrímsson átti frábæran fyrri hálfleik þar sem íslenska liðið lagði grunninn að sigrinum, en staðan að honum loknum var 13-9.

Ísland hélt Egyptum frá sér í seinni hálfleiknum og munurinn varð aldrei minni en þrjú mörk, og lokatölur urðu 27-24.

Ísland er því eina liðið í milliriðli IV með sex stig en Egyptaland, Króatía og Slóvenía koma næst með fjögur stig hvert, nú þegar Ísland á eftir leik við Króata á föstudagskvöld og svo Argentínu næsta sunnudag. Tvö efstu lið milliriðilsins komast í 8-liða úrslitin.

Svona gæti leið Íslands á HM litið út. Stöðuna í milliriðlum má sjá hér að neðan, úrslit og komandi leiki, en gert er ráð fyrir að Ungverjar komist með Frökkum áfram úr milliriðli II, og Íslendingar með Egyptum úr milliriðli IV. Það gæti auðvitað breyst.

Héldu hreinu fyrstu sjö mínúturnar

Það var nánast frost í sóknarleik Íslands í upphafi leiks, og algjört frost hjá Egyptum. Janus Daði kom Íslandi í 2-0 eftir sjö mínútna leik og það var fyrst þá sem að Egyptar fundu leið framhjá Viktori Gísla, sem hélt áfram að fara á kostum í markinu líkt og gegn Slóvenum.

Snorri hóf leik með sama lið og gegn Slóvenum, nema að Sigvaldi kom í hægra hornið í stað Óðins, en eftir tíu mínútna leik komu Aron og Gísli til leiks, í stöðunni 3-2. Sóknarleikurinn gekk betur með þá innanborðs og Ísland komst í 7-4 þegar Viggó skoraði annað mark úr víti, eftir gegnumbrot Gísla.

Gísli Þorgeir Kristjánsson var afar líflegur í sóknarleik Íslands.VÍSIR/VILHELM

Annan leikinn í röð hélt Ísland, og ekki síst Viktor, firnasterkum mótherjum í klakaböndum og Egyptar sáu sér þann kost vænstan að taka leikhlé eftir 17 mínútna leik. Þeir skoruðu úr næstu tveimur sóknum sínum en Aron sá um að halda forskoti Íslands með því að bruna fram og refsa Egyptum fyrir að vera of seinir heim í vörn. Gríðarlegur kraftur í fyrirliðanum.

Frábær lokakafli fram að hálfleik

Sóknarleikurinn gekk í raun vel stóran hluta fyrri hálfleiks, það er að segja þar til kom að því að nýta færin því Karim Handawy fór oft illa með okkar menn.

Ýmir Örn Gíslason barðist um hvern bolta og reynir hér að ná frákastinu.VÍSIR/VILHELM

Staðan var 9-8 fyrir Íslandi þegar Snorri tók leikhlé, sex mínútum fyrir hálfleik, og þessar mínútur gengu stórkostlega. Orri skoraði tvö frábær mörk á skömmum tíma en þeir Aron virtust á löngum kafla einir um að geta fundið leið framhjá Handawy. Aron jók forskot Íslands í þrjú mörk, 12-9, með sínu fjórða marki úr þrumuskoti, Viktor varði frábærlega og Viggó skoraði svo lokamark fyrri hálfleiks af vítalínunni, 13-9. Þriðji magnaði hálfleikurinn í röð hjá strákunum okkar staðreynd.

Blátt haf stuðningsmanna studdi við íslenska liðið í Zagreb í kvöld og naut sín í botn.VÍSIR/VILHELM

Ýmir kom Íslandi fimm mörkum yfir, 15-10, með marki af línunni og útlitið var býsna bjart í upphafi seinni hálfleiks. Egyptum gekk betur að finna leiðina framhjá Viktori en á sama tíma var Gísli duglegur við að opna færi á hinum enda vallarins, og Ísland hélt 4-5 marka forskoti.

Viggó með fjögur mörk í röð

Viggó stal boltanum á viðkvæmum tímapunkti, með Elvar í kælingu, og kom Íslandi í 19-14 þegar tæpar tuttugu mínútur voru eftir, með sínu sjöunda marki, og bætti svo því áttunda við eftir frábæran snúning.

Viggó Kristjánsson var öryggið uppmálað á vítalínunni og stórkostlegur á kafla í seinni hálfleiknum.VÍSIR/VILHELM

Egyptar voru hins vegar eins og mýið í Mývatnssveit því sama hvað íslenska liðið sló frá sér þá tókst ekki að losna alveg við þá.

Ali Zein minnkaði muninn í þrjú mörk, 20-17, þegar rúmlega korter var eftir og Viktor virtist alveg hættur að verja, en Viggó var áfram sjóðheitur og sá til þess að Ísland héldi ágætu forskoti með sínu fjórða marki í röð, 21-17. Sigvaldi skoraði svo úr hraðaupphlaupi og útlitið gott þegar Egyptar tóku leikhlé, fjórtán mínútum fyrir leikslok.

Aron Pálmarsson sækir að vörn Egypta.vísir/Vilhelm

Það batnaði enn þegar Aron skoraði úr hraðaupphlaupi, eftir að Janus Daði stal boltanum, og jók muninn í sex mörk, 24-18. Egyptar skoruðu þá tvö mörk í röð en fengu ekki að komast nær.

Þeir náðu reyndar að minnka muninn í þrjú mörk, 27-24, á lokamínútunni en annar frábær sigur Íslands reyndist niðurstaðan.

Sætið í átta liða úrslitum er ekki öruggt en útlitið er núna afar gott, fyrir leikinn við Króatana hans Dags Sigurðssonar á föstudagskvöld.

Viðtöl, einkunnagjöf, tölfræði og fleira skemmtilegt er væntanlegt inn hér á Vísi í kvöld og næstu daga.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira