Innlent

Einn af hverjum tuttugu fór í ljós á síðustu tólf mánuðum

Atli Ísleifsson skrifar
Ljósabekkjum á Íslandi hefur farið fækkandi á síðustu árum.
Ljósabekkjum á Íslandi hefur farið fækkandi á síðustu árum. Getty

Hlutfall þeirra sem hafa farið í ljós síðustu tólf mánuði á Íslandi er nú fimm prósent og er það einu prósentustigi lægra en í síðustu könnun sem gerð var 2022.

Þetta sýna nýlegar niðurstöður könnunar á notkun ljósabekkja á Íslandi sem Gallup gerði fyrir samstarfshóp Geislavarna, Embættis Landlæknis, húðlækna og Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins.

Á vef Geislavarna segir að einnig fækki ljósabekkjum á Íslandi samkvæmt síðustu talningu Geislavarna sem gerð var 2023. Þá hafi fjöldi ljósabekkja á Íslandi verið 86 en til samanburðar var fjöldinn 97 árið 2020.

Geislavarnir ráða fólki frá því að nota ljósabekki enda fylgir notkun þeirra aukin hætta á húðkrabbameini.

„Það vekur athygli að þrátt fyrir að hlutfall þeirra sem hafa farið í ljós hafi lækkað á milli kannana þá sýna niðurstöðurnar að þeir sem fara á annað borð í ljós fara oftar í ljós núna en árið 2022. Meðalfjöldi skipta sem svarendur hafa farið í ljós á sl. 12 mánuðum fer úr 0,2 skiptum upp í 0,6 skipti. Þar ber mest á því að fleiri fara vikulega eða oftar í ljós: Árið 2022 var hlutfallið 0% en er nú 0,7%. Einnig eru fleiri sem fara í ljós 1-3 sinnum í mánuði. Árið 2022 var hlutfallið 0,1% en er nú 0,4%. Myndin hér að neðan sýnir hvernig þróunin hefur verið frá upphafi mælinga á hlutfalli fullorðinna sem notuðu ljósabekki á undangengum 12 mánuðum.

Geislavarnir ríkisins hafa talið ljósabekki á Íslandi á þriggja ára fresti frá árinu 2005 og var síðasta talning gerð í lok árs 2023. Þá voru samtals 16 staðir sem seldu almenningi aðgang að ljósabekkjum með samtals 86 ljósabekki, þar af 64 á höfuðborgarsvæðinu og 22 utan þess. Myndin að neðan sýnir hvernig fjöldi ljósabekkja á Íslandi hefur þróast frá árinu 2005.

Norrænu geislavarnastofnanirnar hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu um ráðleggingar gegn notkun ljósabekkja og hana má finna hér.

Í skýrslu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sem kom út 2017 segir að notkun ljósabekkja til sólbaða í fegrunarskyni undanfarna áratugi hafi valdið aukinni tíðni húðkrabbameina. Einnig hefur aldur þeirra sem fá slík krabbamein í fyrsta sinn lækkað. Notkun ljósabekkja er talin valda meira en 10 þúsund tilfellum af sortuæxlum árlega og meira en 450 þúsund tilfellum af öðrum húðkrabbameinum í Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu samanlagt. Skaðleg áhrif ljósabekkja eru þannig vel þekkt og því er nauðsynlegt að takmarka notkun þeirra sem mest en 18 ára aldurstakmark á notkun ljósabekkja hefur verið í gildi á Íslandi frá janúar 2011,“ segir á vef Geislavarna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×