Viljayfirlýsing sveitarfélagsins Ölfuss, Hafnarsjóðs Þorlákshafnar, Carbfix, Coda Terminal og Veitna um samstarf um úttekt á forsendum uppbyggingar og reksturs kolefnisförgunarstöðvar í Ölfusi var lögð fram á fundi bæjarráðs í síðustu viku. Tók bæjarráðið jákvætt í erindið og lýsti yfir stuðningi við viljayfirlýsinguna sem verður gerð opinber íbúum til kynningar á næstunni.
Áformin fela í sér að tekið yrði á móti koltvísýringi og honum dælt niður í jörðina og bundinn þar varanlega með Carbfix-tækninni. Carbfix stefnir að því að reisa slíka stöð við Straumsvík í Hafnarfirði sem fargaði koltvísýringi sem fluttur yrði til landsins. Koltvísýringurinn kæmi frá iðnaðarferlum þar sem erfitt er að koma í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegundarinnar en ekki frá bruna á jarðefnaeldsneyti.
Carbfix-tæknin var þróuð við Hellisheiðarvirkjun í Ölfusi þar sem um 75.000 tonnum koltvísýrings hefur verið dælt niður á vinnslusvæði virkjunarinnar frá 2012. Með þeirri aðferð hefur tekist að binda meirihluta koltvísýrings- og brennisteinslosunar frá Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun.
Coda Terminal, kolefnisförgunarstöðin í Hafnarfirði, á að geta bundið að hámarki þrjár milljónir tonna af koltvísýringi á ári þegar hún verður fullbyggð.