Mál foreldranna var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku en aðalmeðferð er á dagskrá í næstu viku.
Haraldur segir í skriflegu svari til fréttastofu að honum þyki vegferð foreldranna „sérstök“ og að kæran sé aðför að kennurum barna þeirra því Kennarasambandið geri ekkert sem sé í óþökk félagsfólksins.
Foreldrahópurinn sé með þessu að gera tilraun til að svipta kennara þeim lagalega neyðarrétti að geta barist fyrir bættum kjörum.
Hann segir vegferðina „sérstaka“ og „skrýtna“ og að hún sé foreldrahópnum til skammar og minnkunar. Hann viti ekki hvernig þeir ætli að horfa í augun á kennurum barna sinna eftir kæruna. Haraldur segist hafa heyrt í mörgum og vonbrigðin sem kennararnir upplifi verði vart lýst með orðum.
Hér að neðan má lesa skriflegt svar Haraldar í heild sinni:
„Þetta er afar sérstök vegferð sem þessi þó litli hópur foreldra í þessum 4 leikskólum er á. Þetta er auðvitað ekkert annað en aðför að kennurum barna þeirra því KÍ er auðvitað ekkert nema félagsfólkið sjálft og KÍ gerir ekkert í óþökk félagsfólks. Hér er verið að gera tilraun til að svipta kennurum þeim lagalega neyðarrétti að geta barist fyrir bættum kjörum og þá framtíðar afkomu sinnar og sinna sem og fyrir leikskólakerfinu öllu sem líður alla daga út um allt land vegna langvarandi skorts á fagfólki.
Nú þegar þessi stefna verður birt verður það opinbert hvaða foreldrar fóru í þessa skrítnu vegferð. Þetta er þeim til skammar og minnkunar og ég veit í raun ekki hvernig þeir ætla að horfa í augun á kennurum barna sinna eftir þetta. Ég hef heyrt í mörgum og vonbrigðin sem kennararnir upplifa í garð þessa hóps verður vart lýst með orðum.
Við munum einfaldlega taka til varna fyrir dómstólum ef málið er dómtækt. Við höfum þar góðan málstað að verja enda höfum við í öllu ferlinu farið í einu og öllu að lögum.“