Erlent

Merz boðar hertar að­gerðir í inn­flytj­enda­málum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Merz þykir líklegur til þess að verða næsti kanslari Þýskalands. 
Merz þykir líklegur til þess að verða næsti kanslari Þýskalands.  AP Photo/Martin Meissner

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Þýskalandi hefur nú lofað því að herða landamæraeftirlit og flýta fyrir brottvísunum hælisleitenda úr landi ef hann verður næsti kanslari Þýskalands.

Friedrich Merz leiðir Kristilega demókrataflokkinn í Þýskalandi og samkvæmt könnunum er hann líklegastur til þess að taka við stjórnartaumunum í Þýskalandi að loknum kosningum sem fram fara fram í næsta mánuði. Ummælin lét Merz falla á kosningafundi daginn eftir að 28 ára afganskur maður stakk tvo til bana í hnífaárás.

Hinn grunaði er í haldi lögreglu en hann á langa sögu geðsjúkdóma og ofbeldis að baki.

Merz hefur hert mjög orðræðu Kristilegra demókrata frá því sem var þegar Angela Merkel stjórnaði flokknum. Þannig segist hann ætla að snúa öllum ólöglegum flóttamönnum sem vilja koma til Þýskalands við á landamærunum, burtséð frá því hverskonar aðstæður þeir eru að flýja. Þá vill hann fjölga lokuðum búsetuúrræðum fyrir flóttamenn og segir að vel sé hægt að nýta tóm vöruhús eða ónotaðar herstöðvar til þess að hýsa flóttafólk á öruggan hátt.

Leiðtoginn hefur einnig gagnrýnt flóttamannamál innan Evrópusambandsins harðlega og vill meðal annars gera miklar breytingar á reglunum um frjálsa för innan Evrópusambandsins sem rúmast innan Schengen samstarfsins. Þannig heitir hann því að taka upp mun harðara eftirlit á öllum landamærum Þýskalands, en níu ríki eiga landamæri að þessu víðfema Evrópulandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×