Lífið

Þorir loksins að hlusta á út­varpið í bíl mömmu sinnar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ágúst ökuþór skælbrosandi undir stýri á Toyota Yarisnum sem hann keypti af móður sinni.
Ágúst ökuþór skælbrosandi undir stýri á Toyota Yarisnum sem hann keypti af móður sinni. Vísir/RAX

Ágúst Borgþór Sverrisson blaðamaður og rithöfundur er orðinn óhræddur við að kveikja á útvarpinu í bílnum. Hann fékk bílpróf fyrir rúmum þremur árum síðan, segist vera afleitur ökumaður og keyrði lengi vel í þögninni einni. Vinnufélagi segir hann hafa stórbætt sig frá því hann hafi varla þorað að keyra út úr Vesturbæ Reykjavíkur.

„Þetta vekur upp minningar hjá mér um það hvernig þetta var fyrstu mánuðina. Þá var ég með ekkert útvarp á. Nú eru þetta orðin tvö og hálft ár síðan ég fékk bílpróf en fyrstu mánuðina var ég svo stressaður að ég vildi enga truflun þannig að ég var með slökkt á útvarpinu,“ segir Ágúst Borgþór í samtali við Vísi.

Tilefnið er færsla hans á samfélagsmiðlinum Facebook þar sem hann lýsir því hróðugur hvaða útvarpsstöðvar eru í hans uppáhaldi. „Við það að verða bílstjóri varð ég útvarpshlustandi. Ég hlusta líklega mest á Samstöðina og Útvarp Sögu vegna þess að þar er viðvarandi talmál,“ segir Ágúst meðal annars í færslunni. Vísi lék forvitni á að vita hvort hann væri nokkuð hættur sem blaðamaður á DV þar sem hann hefur starfað sem undanfarin ár en svo er alls ekki.

Bílpróf eftir blóðugar skammir og fall á rauðu ljósi

Ágúst útskýrir að hann sé nefnilega farinn að keyra svo mikið vegna þess að starfstöðvar DV eru ekki lengur í göngufæri frá heimili hans, heldur í Hlíðarsmára í Kópavogi eftir að miðillinn færði sig þaðan og frá Hafnartorgi þegar Fréttablaðinu var skellt í lás í apríl 2023. Því sé hann farinn að hlusta svo mikið á útvarp, í fyrsta sinn á ævinni.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem skrifaðar eru fréttir um ævintýri ökuþórsins en Fréttablaðið sáluga birti viðtal við hann í september árið 2022 þegar hann endurnýjaði loksins bílprófið eftir dálítið hark og áralanga eyðimerkurgöngu með útrunnið ökuskírteini. Þar fékk hann eftir blóðugar skammir föðurfrænda síns og ökukennara fyrir slakar beygjur og aðra hnökra.

„Þetta gekk ekki áfallalaust því ég féll tvisvar á verklega prófinu en náði því í þriðja skipti. Ég hafði hins vegar ekki aðgang að bíl, var afar slakur og óöruggur bílstjóri og hafði ekki áhuga á bílum,“ sagði Ágúst við Fréttablaðið og sagðist meðal annars hafa keyrt yfir á rauðu ljósi í verklega prófinu.

Í Fréttablaðinu lýsti hann því að hann hafi í raun lítinn áhuga haft á bílum og aldrei keyrt. Hann vaknaði því upp við þann vonda draum að ökuskírteinið var útrunnið. Fólki hafi þótt skrítið að maður á hans aldri væri ekki með bílpróf en Ágúst sagði að hann myndi nú líklega halda sig við bíllausa lífsstílinn, enda gæti hann gengið til vinnu. Nú er öldin önnur.

Svona birtust ökuprófsævintýri Ágústar lesendum Fréttablaðsins í september 2022.

Hræðslan kom eftir á

„Síðustu tveir vetrar hafa verið mjög snjóþungir og rosalega mikil hálka á vegunum. Ég var að keyra til skiptis bíl konunnar minnar sem er Honda CRV og svo bíl móður minnar. Þannig að ég var mjög stressaður,“ útskýrir Ágúst. Hann segir hræðsluna hafa komið eftir á, í umferðinni hafi þetta gengið ágætlega.

„Ég var að fá martraðir og var oft á milli svefns og vöku. Þannig var þetta í nokkra mánuði eftir að ég fékk bílprófið, hálfgerð skelfing. Ætli þetta hafi ekki verið um hálfs árs tímabil,“ útskýrir Ágúst.

„Svo gerist það í apríl 2023 að Torg [útgefandi Fréttablaðsins] fer á hausinn og DV flytur upp í Hlíðarsmára. Sem var auðvitað sorglegt en varð fljótt mjög gaman. En þá gerist það að ég fer að keyra á hverjum einasta degi og það breytti öllu. Á sama tíma er öldruð móðir mín hætt að keyra. Hún er 92 ára og ég keypti bílinn hennar, Toyota Yaris og það er bara orðinn bíllinn minn.“

Útvarpið heldur honum vakandi

„Núna líður mér eins og ég hafi alltaf verið með bílpróf. Sú tilfinning er orðin sterkari. Þetta er samt ekki komið í vöðvaminnið og ég er rosa varkár. Það er helst þannig að ef ég er að keyra á nýjan stað og veit ekki hvert ég er að fara sem ég verð mjög óöruggur og er latur við að nota þessi forrit til að rata um. En svo hef ég komið sjálfum mér á óvart hvað ég er flinkur að keyra inn í bílastæði. Ég bakka gjarnan í þau ef þau er mjög þröng. Þetta er eiginleiki sem ég vissi ekki að ég hefði.“

Ágúst segist vita sem er að flestir bílstjórar séu góðir bílstjórar. Hann óttast saman stundum atferli annarra og efast um eigin viðbrögð. „Nú er maður ekki ungur maður lengur og ég veit ekki hvernig ég myndi bregðast við ef einhver í kringum mig myndi gera eitthvað órökrétt.“

Þá berst talið aftur að útvarpinu. Ágúst segist nú í raun hafa mikla þörf fyrir að hlusta á útvarp í bílnum. Það haldi honum vakandi. Þar sé talmálið númer eitt, tvö og þrjú þó Gull-Bylgjan fái að óma um bílinn endrum og eins og X-ið líka þegar hann er í stuði. Samstöðin og Útvarp Saga eru í mestu uppáhaldi.

„Það er alltaf blaður á Samstöðinni og Útvarpi sögu. Svo er það nú þannig með fréttamenn að maður verður rosalega hlutlaus. Því lengur sem ég vinn á DV, skrifa oftar fréttir um ágreiningsmál, því hlutlausari verð ég. Þess vegna stuðar mig ekkert þegar fólk er að bera fram einhverjar skoðanir bæði á Sögu og Samstöðinni sem eru ekki mínar skoðanir. Ég myndi segja að vinnan á DV hafi gert mig færari um að umbera aðrar skoðanir. Auðvitað er símatíminn á Útvarpi Sögu eins og hann er en þarna eru líka flott viðtöl.“

Björn Þorfinnsson ritstjóri DV fyrir miðju sá sig knúinn til að deila akstursögu af Ágústi með lesendum Vísis. Hér er hann ásamt Kristni Hauki Guðnasyni og Einari Þór Sigurðssyni blaðamönnum DV í síðasta starfsmannateiti Fréttablaðsins þar sem þeir störfuðu allir.Vísir/Vilhelm

Brunaði aftur heim í öryggi Vesturbæjarins

Ágúst segir að hann óttist aðallega í dag að keyra út á land. Hann geri lítið af því en 90 kílómetra hraðinn og tvíbreiðar götur valdi honum ugg. Vísir fékk svo alveg óbeðinn senda frásögn Björns Þorfinnssonar ritstjóra DV og kollega Ágústar af ökuhæfileikum hans og þróun þeirra.

„Þegar DV flutti úr miðbæ Reykjavíkur og upp í Kópavog þá vildi Ágúst koma og kíkja á skrifstofuna um helgi. Við mæltum okkur mót á sunnudegi og okkar maður lagði af stað úr Vesturbænum, hálf stressaður yfir ferðalaginu langa sem framundan var. Svo leið og beið og ég heyrði ekkert aftur í Ágústi fyrr en hann var kominn aftur heim til sín í Vesturbæinn löngu seinna.“

Björn segir að Ágúst hafi þá villst af leið og orðið svo stressaður að hann hafi ákveðið að bruna aftur heim í öryggi Vesturbæjarins. „Og hringja þaðan í mig til að fá ítarlegri leiðbeiningar! En þótt ég hafi óttast um vegfarendur höfuðborgarsvæðisins fyrst um sinn þá hafa framfarirnar verið miklar og nú er svo komið að í sömu aðstæðum myndi Ágúst bara keyra út í kant og hringja í mig!“


Tengdar fréttir

Að skapa er partur af því að vera til

Ágúst Borgþór Sverrisson hefur á undanförnum árum getið sér orð fyrir smásagnagerð. Nýlega sendi hann frá sér nýja nóvellu, Stolnar stundir, sem dregur dám af hans eigin lífi – og þó ekki.

Ágúst Borgþór kennir blogg

Hinn landskunni bloggari Ágúst Borgþór, Bloggþór, miðlar nú af reynslu sinni á námskeiði í bloggi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.