Innlent

Ás­laug Arna boðar til fundar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur boðað til fundar.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur boðað til fundar. Vísir/Vilhelm

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra, boðar til fundar í Sjálfstæðisalnum við Austurvöll, í gamla NASA.

Fundurinn mun fara fram á morgun, sunnudaginn 26. janúar, klukkan eitt.

Þetta kemur fram í færslu Áslaugar á Facebook. Þar kemur ekki fram hvert tilefni fundarins sé, en Áslaug hefur verið sterklega orðuð við formannsframboð í Sjálfstæðisflokknum eftir að Bjarni Benediktsson greindi frá því að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram um mánaðarmót febrúar og mars.

Eftir að Bjarni tilkynnti um ákvörðun sína voru margir orðaðir við framboð, sérstaklega fyrrverandi ráðherrar flokksins, sem létu af embættum þegar ný ríkisstjórn tók við í desember. Það eru Áslaug, Guðlaugur Þór Þórðarson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir.

Á fimmtudag tilkynnti Þórdís, sem er varaformaður flokksins, að hún hygðist ekki bjóða sig fram í neitt embætti á landsfundi. Guðrún Hafsteinsdóttir greindi frá því, einnig á fimmtudag, að hún íhugaði alvarlega að bjóða sig fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×