Framkonur skoruðu fyrstu sex mörkin í Eyjum í dag og skoraði Þórey Rósa Stefánsdóttir fjögur þeirra.
Það var ekki fyrr en að Ásdís Halla Hjarðar skoraði á 14. mínútu sem að ÍBV komst á blað en staðan í hálfleik var þó 14-10, samkvæmt HB Statz.
ÍBV tókst að minnka muninn í þrjú mörk í seinni hálfleiknum, til dæmis 17-14 þegar þrettán mínútur voru eftir, en Fram jók þá muninn á ný og vann öruggan sigur.
Þórey Rósa varð markahæst með sjö mörk, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín skoraði fimm og Steinunn Björnsdóttir fjögur. Hjá ÍBV voru Ásta Björt Júlíusdóttir, Birna Berg Haraldsdóttir og Birna María Unnarsdóttir markahæstar með þrjú mörk hver.
Fram og Haukar eru með 20 stig eftir þrettán umferðir, fjórum stigum á eftir toppliði Vals, en ÍBV er með sex stig í næstneðsta sæti, þó aðeins stigi á eftir ÍR.