Körfubolti

Grinda­vík fær fé­laga Kane sem spilaði í NBA

Sindri Sverrisson skrifar
Jeremy Pargo lék með Real Betis í skamman tíma árið 2023. Hér er hann í leik gegn Real Madrid.
Jeremy Pargo lék með Real Betis í skamman tíma árið 2023. Hér er hann í leik gegn Real Madrid. Getty/Borja B. Hojas

Fyrrverandi NBA-leikmönnum heldur áfram að fjölga í Bónus-deild karla í körfubolta og nú hafa Grindvíkingar fengið hinn 38 ára gamla Jeremy Pargo í sínar raðir.

Pargo er leikstjórnandi og kemur í stað Devon Thomas sem hefur verið leystur frá störfum en í tilkynningu Grindvíkinga er Thomas þakkað kærlega fyrir samstarfið.

Pargo er hokinn af reynslu og hefur eins og fyrr segir spilað tvö tímabil í NBA-deildinni, með Memphis Grizzlies 2011-12 og svo Cleveland Cavaliers og Philadelphia 76ers 2012-13. Seinni leiktíðina spilaði hann að meðaltali 17,9 mínútur í leik með Cleveland og 14,9 mínútur með Philadelphia. Hann var svo einnig hjá Golden State Warriors og spilaði þar þrjá leiki tímabilið 2019-20.

Vann fjölda titla og spilaði úrslitum EuroLeague

En Pargo, sem er yngri bróðir Jannero Pargo, hefur einnig spilað í EuroLeague með Maccabi Tel Aviv og CSKA Moskvu, og unnið fjölda titla í Ísrael og Rússlandi. Þá lék hann einnig til úrslita í EuroLeague með Maccabi Tel Aviv, árið 2011.

Hjá Grindavík hittir Pargo fyrir annan Bandaríkjamann, DeAndre Kane, en þeir léku saman með Maccabi Tel Aviv tímabilið 2018-19.

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, er að vonum fullur tilhlökkunar að sjá Jeremy Pargo á vellinum með Grindavík en í tilkynningu er haft eftir honum:

„Jeremy er afar heilsteyptur leikmaður, hávaxinn leikstjórnandi sem getur skorað allsstaðar af vellinum þegar hann er ekki að gefa stoðsendingar í bunkum. Hann kemur með mikla reynslu inn í hópinn og ætti að geta stýrt sóknarleiknum með aga og stöðugleika, sem er akkúrat það sem okkur hefur vantað í síðustu leikjum.“

Félagaskiptaglugginn í íslenskum körfubolta lokast á miðnætti á föstudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×