Þór Akureyri hélt sigurgöngu sinni í Bónus deild kvenna áfram í kvöld og vann tíunda leikinn í röð gegn Aþenu, neðsta liði deildarinnar sem hefur nú tapað síðustu átta leikjum. Lokatölur í Breiðholtinu 85-95.
Varnarleikurinn góði sem einkennir lið Aþenu yfirleitt var ekki mikið til sýnis í kvöld. Þær reyndu vissulega, spiluðu fast, hlupu mikið og pressuðu hátt, en Þórskonum reyndist á löngum köflum alveg ofboðslega auðvelt að finna leiðir til að koma stigum á töfluna.

Hálfleikstölur 41-58 og Aþena hafði þar með fengið á sig næstum því jafn mörg stig og öllum leiknum gegn Val í síðustu viku.

Frábær skotnýting hjálpaði Þór vissulega, en þær fengu líka heilan helling af auðveldum stigum með því að vera snöggar að snúa vörn í sókn eða með því að kasta boltanum einfaldlega yfir hápressu Aþenu.


Þór hélt þannig áfram að bæta við forystuna í þriðja leikhluta á meðan Aþena upplifði langan stigaþurrk. Staðan 54-83 fyrir fjórða leikhluta og orðið aðeins formsatriði fyrir Þór að klára leikinn og sækja sigur.


Aþena átti síðan frábæran fjórða leikhluta á meðan Þór leyfði lykilmönnum að hvíla töluvert, en því miður var orðið allt of seint og allt of mikill munur milli liðanna til að einhver endurkoma væri í kortunum. Niðurstaðan 85-95 Þórssigur.
Staðan í deildinni
Þórskonur eru komnar með 24 stig og hafa nú jafnað Hauka að stigum í efsta sæti deildarinnar en Haukarnir eiga leik til góða gegn Grindavík á morgun. Aþena er í neðsta sætinu með sex stig, tveimur stigum minna en Grindavík.
Stjörnur og skúrkar
Þórsliðið í heild sinni með frábæra frammistöðu, í þrjá leikhluta allavega.
Amandine Toi gríðarlega öflug, svakaleg snerpa og góður leikskilningur líka. Las vörnina vel og uppskar helling af stigum. Esther Fokke hörkutól, spilaði í gegnum meiðsli.
Madison Sutton gaf ekki tommu eftir, ótrúlegt hvað hún getur frákastað þó hún sé ekki sú hæsta í loftinu. Var lang framlagshæst með fjörutíu punkta.
Aþena átti ekki sinn besta dag.
Violet Morrow var þeirra ljósi punktur. Hitti vel og skilaði mestu fyrir liðið sóknarlega. Elektra Mjöll skilaði einnig góðu framlagi af bekknum og setti fjóra þrista.
Aðrar voru í vandræðum, Dzana Crnac hitti ekki skoti úr sex tilraunum. Hanna Þráinsdóttir hitti aðeins einu úr átta tilraunum og fékk fimm villur.
Dómarar
Slök frammistaða hjá þríeykinu í kvöld. Línan sem þeir lögðu í upphafi leiks hélst alls ekki þegar líða fór á. Mjög erfiður leikur að dæma, vissulega, en þeir voru of ragir við að dæma villur á lið Aþenu.
Stemning og umgjörð
Afar fámennt í Unbroken höllinni. Trommur vissulega, þannig að von um stemningu var til staðar, en það var ekki mikið mundað kjuðann þegar sást í hvað stefndi.
Einnig er töluvert rými til bætingar í aðkomu og upplifun áhorfenda á leiknum.
Viðtöl
Berast á Vísi innan skamms.