Á vef Veðurstofunnar segir að það verði kalt í veðri með frost á bilinu þrjú til fimmtán stig.
„Á morgun er vetrarkyrrðin búin, því þá gera spár ráð fyrir að gangi í suðaustan hvassviðri með rigningu eða slyddu nærri sjávarmáli, en snjókomu á heiðum. Hiti 0 til 5 stig eftir hádegi. Hægari vindur um landið norðaustanvert, þurrt fram á kvöld og hlýnar smám saman á þeim slóðum. Mun hægari vindur og úrkomulítið á vestanverðu landinu annað kvöld.
Seinnipartinn á föstudag er síðan útlit fyrir að gangi í sunnan storm með rigningu og hlýindum,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Gengur í suðaustan 15-23 m/s með rigningu eða slyddu nærri sjávarmáli, annars snjókomu. Hiti 0 til 5 stig seinnipartinn. Hægari vindur og þurrt á Norður- og Austurlandi þangað til síðdegis og hlýnar smám saman. Snýst í vestan 8-15 á vestanverðu landinu undir kvöld með éljum og kólnar.
Á föstudag: Vaxandi sunnan- og suðaustanátt, 18-25 undir kvöld og rigning, en þurrt norðaustanlands. Hlýnandi veður.
Á laugardag: Hvöss sunnanátt og rigning eða slydda með köflum, en bjartviðri norðaustanlands eftir hádegi. Hiti 2 til 10 stig, hlýjast á Austurlandi.
Á sunnudag: Sunnan strekkingur og skúrir eða él, en þurrt á Norður- og Austurlandi. Hiti kringum frostmark. Hvessir líklega verulega seinnipartinn með talsverðri rigningu og hlýnar.
Á mánudag og þriðjudag: Ákveðin suðvestanátt með éljum, en þurrt og bjart um landið norðaustanvert. Kólnandi veður.