„Það var orðið tímabært að endurskoða siðareglurnar og ég er mjög ánægð hvernig til hefur tekist. Siðareglurnar eru hnitmiðaðri en áður og draga fram með skilmerkilegum hætti hvernig bæjarfulltrúar skulu starfa,“ segir Elísabet Sveinsdóttir forseti bæjarstjórnar í tilkynningu frá bænum.
Þess má geta að forsætisnefnd hafði sér til ráðgjafar Sigurð Kristinsson, prófessor við Háskólann á Akureyri.
Siðareglurnar eru svohljóðandi:
• Við störfum í þágu allra Kópavogsbúa með opnu samtali, virku upplýsingaflæði og hlustum á ólík sjónarmið. Farsæld íbúanna er okkar hjartans mál.
• Við stöndum vörð um fjármuni bæjarins og förum vel með eigur hans enda er traustur rekstur undirstaða farsældar og vaxtar.
• Við nýtum ekki stöðu okkar eða upplýsingar fengnar í starfi í þágu eigin hagsmuna eða hagsmuna tengdra aðila.
• Við störfum af heilindum og ábyrgð, sýnum háttvísi og berum virðingu fyrir skoðunum annarra.
• Það á að vera gott að vinna hjá Kópavogsbæ og í því augnamiði virðum við hlutverk og störf starfsmanna, sýnum kurteisi og tillitssemi í samskiptum við þá.
• Við kynnum okkur málin, komum undirbúin til starfa, segjum satt og rétt frá, gætum trúnaðar og sýnum sanngirni í hvívetna.