Körfubolti

„Á­huga­verð veg­ferð að vera með tvo Njarðvíkinga að dæma“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Pétur Ingvarsson, var ekki sáttur við störf dómara í leiknum. 
Pétur Ingvarsson, var ekki sáttur við störf dómara í leiknum.  Vísir/Jón Gautur Hannesson

Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur, var hvorki sáttur við spilamennsku leikmanna né störf dómaranna þegar liðið laut í lægra haldi fyrir KR í Bónus-deild karla í körfubolta í Vesturbænum í kvöld. 

„Við vorum undir lungann úr þessum og náðum okkur aldrei í þann takt sem við viljum komast í. Fyrir utan góðan kafla í fjórða leikhluta þá voru KR-ingar í raun með yfirhöndina allan leikinn. Við hefðum hins vegar getað náð í stigin tvö þrátt fyrir að spila ekki vel,“ sagði Pétur, ósáttur með frammistöðu sinna leikmanna.

„Við náðum að koma okkur inn í leikinn en þá komu mjög dýrir dómar á móti okkur. Tæknivillur og annað sem mér fannst ansi ódýrt. Mér finnst mjög áhugavert hjá KKÍ að senda tvo Njarðvíkinga að dæma þennan leik," sagði Pétur hundfúll.

„Það hljóta að vera til fleiri dómarar á landinu en þessir tveir. Mér finnst þetta skrýtin vegferð svo ég segi ekki meir,“ sagði hann enn fremur um dómaratríótið sem dæmdi leikinn í kvöld.

Aðspurður um hvort sú saga sem gengur um körfuboltasamfélagið að Callum Lawson sé á leiðinni í herbúðir Keflavíkur sagði Pétur hvorki af eða á en ýjaði að því að hann myndi koma áður en félagaskiptaglugganum lýkur: „Ég get ekki staðfest það en þið sjáið það fyrir miðnætt hvort það gerist eða ekki,“ sagði hann um mögulegan liðsstyrk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×