Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari lagði fram innanhússtillögu á fimmtudaginn og gaf Kennarasambandi Íslands til klukkan eitt í dag til að taka afstöðu til hennar. Samband íslenskra sveitarfélaga samþykkti tillöguna einróma í gær.
Inga Rún segir SÍS gera margar athugasemdir við tillöguna sem feli í sér talsverðan kostnað en að mikilvægt sé að sýna sáttavilja og ganga frá samningum.
„Við höfum áhyggjur af ýmsu í þessari tillögu og ýmsar athugasemdir. En virðismatsvegferðin er eitthvað sem okkur þykir mjög nauðsynlegt að fara í og það varð því ofan á eftir mikið samráð við okkar bakland í gær,“ segir Inga Rún.
Ertu bjartsýn á að það náist að binda hnút á þetta í dag?
„Það væri óskandi. Þá eru menn komnir í markaða vegferð að leysa þessa deilu og auðvitað vona ég það,“ segir Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga.