Innlent

Verk­föllum af­lýst eftir að samningi var landað hjá sátta

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Bjarna Ingimarssyni formanni Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna var afar létt yfir því að hafa náð að skrifa undir kjarasamning.
Bjarna Ingimarssyni formanni Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna var afar létt yfir því að hafa náð að skrifa undir kjarasamning. Vísir/sigurjón

Landssamband Slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og sveitarfélögin náðu að landa kjarasamningi á áttunda tímanum í gærkvöldi eftir langan og strembinn dag. Bjarna Ingimarssyni, formanni Landssambandsins, var að vonum létt yfir áfanganum.

„Jú, þetta er búið að vera langt ferli hjá okkur. Þetta voru að verða fimmtán mánuðir frá við byrjuðum að tala saman þannig að það er ágætt að hafa náð að klára þetta.“

Með undirritun samningsins í gærkvöldi var verkföllum, sem áttu að hefjast á mánudaginn næstkomandi, aflýst. 

Á tólfta hundrað falla undir samninginn. Það sem tekur nú við hjá Bjarna er að kynna hann fyrir félagsmönnum, hringinn í kringum landið en atkvæðagreiðsla verður að hafa farið fram fyrir 24. febrúar.

En hvernig er tilfinningin gagnvart þessum samningi? Ég veit að hann var erfiður í fæðingu en hvað finnst þér um hann?

„Við sem skrifuðum undir hann erum bara nokkuð sáttir. Launalega séð er þetta svipað og verið hefur í síðustu samningum hjá öðrum félögum. Við erum með ákveðnar breytingar á menntunarkaflanum í samningnum hjá okkur sem við teljum að búi til aukna möguleika fyrir félagsmenn til að sækja sér viðbótargreiðslur fyrir menntun, bæði starfstengda og svo annað sem gæti tengst starfinu.“


Tengdar fréttir

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn á leið í verkfall

Félagsmenn í Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna samþykktu boðun verkfalls með yfirgnæfandi meihluta í atkvæðagreiðslu sem lauk í dag. 88 prósent þeirra samþykktu aðgerðirnar vegna pattstöðu í kjaraviðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×