Skoðun

Sjálf­sögð krafa um upp­lýsingar um slit kjara­viðræðna

Ragnar Sigurðsson skrifar

Kjarasamningar kennara við ríki og sveitarfélög eru vandasamir enda gegnir stéttin framlínustörfum í velferð barna. Sveitarstjórnarfólk um allt land hefur beina hagsmuni af því að kjarasamningar náist við kennara sem fyrst, þar sem eðlilegt skólahald er undirstaða öflugs menntakerfis og velferðar barna. Þegar samningaviðræður fara í strand er brýnt að vita af hverju.

Margt er á huldu um það hvað varð til þess að upp úr slitnaði. Það sem við vitum fyrir víst er að á laugardaginn barst kennurum óvænt tillaga að viðbót við tilboð ríkissáttasemjara. Ekki er vitað hvaðan sú tillaga kom né hver lagði hana til.

Í viðtölum hefur formaður Sambands Íslenskra sveitarfélga staðfest að þessi óvænta viðbót við tillögu ríkissáttasmejara hafi gefið kennurum „vissu um að hægt væri að ganga lengra varðandi launahækkanir en fram kom í innanhústillögu sem Ástráður Haraldsson ríkissátasemjari lagði fram í kjaradeilunni“. (Sögðust hafa vissu um að hægt væri að ganga lengra).

Við vitum einnig að Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasamband Íslands segist ekki hafa upplifað „heilindi“ í viðræðunum. Hann hefur sagt að í gang hafi farið: „...pólitískur hráskinnaleikur“ um seinustu helgi og að þeim hafi orðið ljóst að „...hugur fylgdi ekki máli í þeim setningum sem að forsætisráðherra og formaður sambandsins höfðu komið fram með...“ („Pólitískur hráskinnaleikur“ kom í veg fyrir samning).

Ekki verður betur séð an að tillaga sú sem lögð var fram sem viðbót við tillögu ríkissáttasemjara hafi sprengt viðræður milli kennara og ríkis og sveitarfélaga.

Engin hefur hingað til viljað upplýsa um hver lagði slíka tillögu fram né í hvers umboði það var gert. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að við hjá sveitarfélögunum fáum svör hvað þetta varðar.

Ljóst er að allir vilja ljúka viðræðunum sem fyrst, en þar til það liggur fyrir hvað raunverulega gerðist um síðustu helgi, þegar samningar sprungu, verður áfram erfitt að ná lendingu. Sveitarstjórnarfólk eiga skýlausa kröfu á þá vitneskju.

Ég hvet því stjórn sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands til að upplýsa okkur um það hver lagði tilgreinda tillögu fram og hvað var í henni fólgið?

Höfundur er formaður sveitarstjórnarráðs Sjálfstæðisflokksins og formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar.




Skoðun

Sjá meira


×