Töframáttur menntunar og tilbreytingarlaust töðumaul peningatómhyggjunnar Geir Sigurðsson skrifar 7. febrúar 2025 18:31 Í október í fyrra skrifaði ég á þessum vettvangi pistil um tilgang menntunar og víðtækara gildi hennar fyrir samfélag og mannlíf: Menntun er fjárfesting í framtíðinni - Vísir Hér langar mig að bæta við nokkrum hugleiðingum með sérstöku tilliti til ýmissa málefna og atburða sem hafa verið í deiglunni á undanförnum vikum og mánuðum. Kannski endurtek ég eitthvað hér úr fyrri pistli en sannleikurinn er ekki of oft sagður og frumleiki er ekki helsta markmið mitt hér. Menntun er mér almennt mikið hjartans mál, óháð námsstigi. Ég trúi því að menntun og menntakerfi séu lykilþáttur í uppbyggingu og viðhaldi samfélags sem „virkar“ fyrir mannlíf í öllum sínum litríku birtingarmyndum – ekki bara samfélags sem miðar að síaukinni neyslu. En tölum aðeins fyrst um einstaklingana því það er líkast til ekki lengur í tísku að höfða til samfélagskenndar. Menntun er einn stóri lykillinn að hamingju einstaklinganna. Hún getur opnað þeim dyr sem þeir höfðu ekki einu sinni vitað að voru til. Hún getur veitt þeim sjálfsskilning, sjálfstraust sem einkennist af samhygð og víðsýni, varpað nýju ljósi á lífsins gæði, leitt þá inn á skapandi og uppbyggilegar brautir og gjörbreytt til hins betra þeirri forgangsröð sem þeir fylgja í lífinu. Ef vel er að henni staðið getur mennt verið máttur í þessum tilvistarheimspekilega skilningi. Með hliðsjón af þessum töframætti menntunar sætir furðu hversu áhugi landsmanna á menntun er takmarkaður. Það bar t.d. lítið á umræðu um menntun í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga. Annað hvort þykir hún skipta óverulegu máli eða menntakerfi okkar eru talin vera í himnalagi og því engin ástæða til að velta vöngum yfir þeim. En í báðum tilvikum er þetta alrangt. Menntun á öllum skólastigum er alger grundvöllur blómlegs og heilbrigðs mannlífs – í víðum skilningi þeirra orða. Og um leið vanrækjum við kerfin sem við höfum komið okkur upp til að þau hafi svigrúm – og fái nægilega margt hæft fólk til starfa – til að sinna hlutverkum sínum. Æ algengara er að rekast á þær skoðanir að menntakerfin okkar séu of dýr eða ekki nægilega skilvirk með hliðsjón af því sem margir virðast telja vera eina markmið þeirra: að framleiða tæknilega hæfa starfsmenn, stuðla þannig að áframhaldandi hagvexti og auka einkaneyslu. Auðvitað skiptir máli að þjálfa fólk til að gegna ákveðnum störfum svo þeim verði vel sinnt. Og auðvitað skiptir hagvöxtur líka einhverju máli (þótt ég telji vægi hans raunar vera stórlega ofmetið). Og einkaneysla er óhjákvæmileg – upp að vissu marki. Hvað sem því líður eru þessi markmið bara örlítið brot af því sem menntakerfin hafa – eða ættu að hafa – að leiðarljósi. Til hvers viljum við til dæmis að samfélagsmeðlimir kunni að lesa? Varla bara til að þau geti lesið sér til „gagns“ á starfsvettvangi eða skilið leiðbeiningar sem fylgja neysluvörum. Við hljótum að stefna hærra en það. Öll raunveruleg menntun stefnir hærra en það að umbjóðendur þeirra verði einungis að nýtilegum tannhjólum í hagvaxtarmaskínunni. Eða er það kannski ekki lengur svo? Er siðmenningarlegur metnaður dottinn úr tísku? Felum við nú samskiptmiðlum því hlutverki að nostra við sjálfstæða, skapandi og gagnrýna hugsun? Þótt menntakerfin okkar hafi aldrei verið gallalaus hefur staða þeirra versnað verulega á undanförnum árum. Ein birtingarmynd þessarar versnandi stöðu er vangetan til heildrænnar hugsunar um menntun. Kerfin hafa verið brotin í sundur og um leið brotin niður – niðurbrot kerfanna hefur sjálft verið kerfisbundið, eins konar niðurrifsbylting að ofan. Sláandi dæmi um þetta allsherjar niðurbrot var þegar málefni háskólanna voru rifin úr samfellu menntunar á öðrum skólastigum og skeytt saman við nýsköpun og iðnað á kjörtímabili síðustu ríkisstjórnar. Það markaði innreið eyðileggjandi nýfrjálshyggjunálgunar inn í menntakerfi okkar, nálgunar sem hefur verið að ryðja sér rúms á flestum sviðum samfélagsins og gerir raunar út af við nánast öll sameiginleg hagsmunamál samfélagsins sem hún kemur nálægt með því að fórna þeim á altari peningatómhyggju og grafa undan getunni til að skilja tilgang samfélagslegra stofnana í heildarsamhengi. Um þetta eru ótal dæmi erlendis frá, en samt hefur verið haldið áfram á sömu niðurrifsbrautinni hér á landi, líklega vegna þess að einhverjir sjá sér persónulega hagnaðarvon einhvers staðar í ferlinu. Án þess að tíunda hér alla þá skemmdarverkastarfsemi sem fyrrum ráðherra háskólamála stóð fyrir á síðasta kjörtímabili – að mestu vegna hugmyndafræðilegrar blindu, oflætis og augljósrar vanþekkingar á viðfangefni sínu – verður þeim létti vart lýst þegar ráðherra hrökklaðist loks frá. Ný ríkisstjórn hefur nú sett háskólamálin í samhengi menntunar og nýsköpunar, sem er vissulega skömminni skárra, en það er miður að hún hafi ekki tekið heildrænni afstöðu í nálgun sinni á menntamálin. Ég hef vissulega skilning á þeirri framvindu sem leitt hefur til þess að margir koma ekki auga á gildi háskólamenntunar nema sem tæki til að kynda undir hagvöxt og nýsköpun í atvinnulífinu. Háskólar hafa mikið breyst á undanförnum áratugum og stærstur hluti hins „hagnýta“ sérnáms sem áður var innan veggja sérskóla er nú orðinn að háskólagreinum. Fyrir þessu eru ýmsar ástæður, margar vondar, aðrar eilítið skárri, en hvað sem öðru líður er staðreyndin sú að hinar svokölluðu „hagnýtu“ (starfstengdu) greinar eru nú í meirihluta þeirra námsleiða sem háskólarnir bjóða upp á. Þetta breytta vægi hefur sett aukinn þrýsting á þær greinar háskólanna sem leiða ekki nauðsynlega til tiltekinna starfa. En nálarauga þessa þrönga gildismats missir sjónar á víðtækari tilgang menntunar. Flestar greinar hug- og félagsvísinda hafa snúist um að gera okkur kleift að dýpka þann skilning sem við höfum á stöðu okkar innan mannlegs og náttúrulegs umhverfis, efla sköpunargáfuna, auka getuna til að vera ábyrgir og gagnrýnir þátttakendur í lýðræðissamfélagi og móta sér viðhorf og jafnvel „smekk“ sem gerir meiri kröfur til þeirra sjálfra. Með þessu síðasta á ég við að rækta með sér þá hæfni að njóta flóknari og dýpri athafna, lista, bókmennta og kannski einmitt getu til þess að halda stöðugt áfram að læra og auðga sig með andlegum hætti. Allt þetta krefst þjálfunar og gott samfélag er samfélag þar sem fólk fær næg tækifæri til að fága sig með þessum hætti, stuðla þannig að eigin hamingju og þar með um leið að hamingju annarra í kringum sig. Slíkt samfélag er jafnframt líklegra til að virða leikreglur lýðræðisins og átta sig á gildi réttlætis og sanngirni sem skipta sköpum fyrir áframhaldandi tilvist eiginlegs „sam-félags“. Þessi gæði verða einfaldlega ekki mæld í kassalaga eyðum excel-skjalanna. Það er merkilegt hvað mikil heift virðist ríkja í garð fólks sem hefur lagt stund á nám sem leiðir ekki beinlínis til ákveðinna starfa, oftast vegna ástríðufulls áhuga á afmörkuðum þáttum mannlífs og menningar. Þau eru ósjaldan sögð „gagnslaus“, einungis vegna þess að krónurnar og aurarnir sem koma inn í kassann verða ekki auðveldlega taldir. Eftir að kunngert var að gjaldeyristekjur af listum væru verulegar hefur því auðvitað verið haldið mjög á lofti, enda eru það einu rökin sem margir virðast geta meðtekið, en þetta ætti í besta falli að vera aukaatriði þegar verðmæti lista er annars vegar. Á stundum hef ég heyrt því fleygt að meina ætti eldri samfélagsmeðlimum að sækja háskólanám, því þeir ætli hvort sem er ekki að stunda störf sem tengjast þeim. Svo hörð er gagnsemiskrafan orðin – og gagnsemin þá jafnan mæld í tekjum – að ætla mætti að góður efnahagur væri ekki tæki til að auðga mannlífið heldur öfugt. Erum við virkilega komin alla leið þangað? Þessi árátta í kringum störf og starfsvettvang er nefnilega birtingarmynd peningatómhyggjunnar. Ekki ætla ég að hafa langt mál um hana en það er umhugsunarefni þegar ein ríkasta þjóð heims virðist hafa svo miklar áhyggjur af því að geta ekki stöðugt aukið neyslu sína að hún treystir sér ekki til að fjármagna eigin grunnstoðir. Ég fullyrði að við gætum verið helmingi fátækari og samt rekið samfélag þar sem langflestir hefðu það býsna gott ef menntunarstigið væri hærra – og misskiptingin minni. Sagt hefur verið að á einu ári breytist allt en á hundrað árum breytist ekki neitt. Í ræðu sinni sem háskólarektor árið 1922 mælti Sigurður Nordal eftirfarandi orð sem eiga ekki síður við í dag en fyrir hundrað árum: „Maðurinn lifir ekki á einu saman brauði. Maðurinn lifir alls ekki á brauði. Brauðið bjargar honum frá að deyja. Maðurinn lifir á ævintýrunum. Án þess væri lífið ekki líf og maðurinn ekki maður. Það er óþarfinn svo nefndi, þau verðmæti lífsins, sem varpa yfir það ljóma fegurðar og ímyndunar, sem gerir daglega lífið þolanlegt. Heldur eigum vér að spara allt við oss hversdagslega, og kunna svo að halda hátíð á milli, en gera allt lífið að tilbreytingarlausu töðumauli.“ („Trúin á ævintýrin“, List og lífsskoðun III, s. 218) Nú hefur verkfall skollið á hjá leik- og grunnskólakennurum (og framhaldskólakennarar og prófessorar í ríkisháskólum fylgja líklega í kjölfarið en þau mál læt ég liggja milli hluta hér). Margir landsmenn agnúast yfir þessu – sumir fara jafnvel í dómsmál (eins og það gæti leyst vandann – héldu þeir að hægt sé að hlekkja kennara við vinnustaði sína?) – án þess að hafa skýra hugmynd um þau verkefni og þær aðstæður sem mæta þessum stéttum. Í fyrri pistli impraði ég á aðstæðum leikskólakennara en sú eymdarsaga verður ekki of oft sögð. Flestir íslenskir leikskólar eru nú að mestum hluta mannaðir af ómenntuðu starfsfólki, oft ungmennum, sem hefur ekki þjálfun til að sinna störfum sínum, hefur sjaldnast sérstakan áhuga á þeim, sem faglært fólk þarf þess vegna líka að fylgjast vel með og raunar síendurtekið að þjálfa því flest staldra þau stutt við. Þetta eru óboðlegar aðstæður fyrir faglært starfsfólk sem valda þeim óþarfa álagi og ekki síður skiljanlegri gremju því það hindrar þau í að sinna störfum sínum. Þetta eru líka óboðlegar aðstæður fyrir leikskólanemendur sem margir hverjir þurfa á því að halda að fagaðilar hafi tækifæri til að greina hvar þeir standa höllum fæti og grípa inn í með markvissum aðgerðum (snemmtækri íhlutun) til að „byrgja brunninn“. Já, máltækið allt á svo sannarlega vel við í þessu samhengi. Því þetta eru líka óboðlegar aðstæður fyrir samfélagið. Snemmtæk íhlutun eru líka töfrar en – þegar best tekst til – töfrar sem enginn tekur eftir, því þeir felast í því að koma í veg fyrir að barnið fari snemma út af sporinu, finni sig ekki í grunnskóla, flosni upp og verði ógæfusamur einstaklingur sem þurfi á alls kyns (mjög kostnaðarsamri) aðstoð hins opinbera að halda í framtíðinni. Í upphafi skal endinn skoða. Ástandið á leikskólum – og um grunnskóla gildir í meginatriðum hið sama – má rekja til þess að störfin eru óþarflega krefjandi vegna undirmönnunar og vegna þess að skólarnir neyðast til að ráða of margt ófaglært fólk. Það er fjarri því að ég sé að hnýta í þetta fólk en staðreyndin er sú að það hefur ekki hlotið tilskilda þjálfun – menntun – til að sinna störfum sínum og getur því jafnvel einfaldlega verið til trafala. Og þá fer vítahringurinn í gang. Hverjum hugnast að leggja á sig fimm ára háskólanám og starfa svo á vettvangi þar sem launin eru varla umtalsvert hærri en fyrir að afgreiða í verslun, þurfa að standa í því að slökkva elda alla daga og brenna svo sjálf út innan tuttugu ára? Markmiðið hlýtur að vera að laða áhugasamt fólk að því að halda í námið, öðlast haldbæran skilning og kunnáttu til að gegna störfunum og beita töfrum sínum til að stuðla að hamingju einstaklinganna og þar með blómlegra samfélagi. Sem þjóð verðum við að hætta að hugsa í fjögurra ára athyglisbresti stjórnmálanna og hugsa til lengri framtíðar. Við verðum að hætta að hugsa um menntakerfið sem „óheppilegan kostnað“ og hugsa um það sem nauðsynlegan grundvöll þess að geta átt sjálfbært samfélag um ókomna tíð. Við þurfum líka að hugsa um það heildrænt sem sameiginlegan vettvang okkar til að gera úr garði samfélag sem „virkar“ fyrir alla. Og svo verðum við almennt að brjótast út úr peningatómhyggjunni eða því „tilbreytingarlausa töðumauli“ að einskorða gildismat við þrönga fjárhagslega mælikvarða. Umfram allt þurfum við að efla andlegar nautnir og sérstaklega getuna til að njóta þeirra. Þótt þær krefjist tíma, þjálfunar og nosturs eru þær á endanum ekki bara ódýrari, skilvirkari og uppbyggilegri en hinar efnislegu, heldur líka mun sjálfbærari og umhverfisvænni. Síðast en ekki síst eru það einmitt þær sem gera mannlífið að því sem það er – eða gæti vonandi orðið. Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skóla- og menntamál Kennaraverkfall 2024-25 Mest lesið Kæra vinkona Margrét Pála María Ösp Ómarsdóttir,Tinna Björg Kristinsdóttir Skoðun Þurfa kennarar full laun? Elín Erna Steinarsdóttir Skoðun Gerræðisleg og hjartalaus leyfisveiting, sem stöðva verður! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Fagmenntun er réttur barna en ekki lúxus Bentína Þórðardóttir,Ingibjörg Jónasdóttir,Júlía Guðbrandsdóttir,Sigríður Sigurjónsdóttir Skoðun Dýrkeypt skiptimynt! María Védís Ólafsdóttir Skoðun Svar til Höllu – Varasjóður VR Þorsteinn Skúli Sveinsson Skoðun Opið bréf til stjórnar Leikfélags Reykjavíkur Margrét Tryggvadóttir Skoðun Kristið fólk er ekki betra en annað fólk Bjarni Karlsson Skoðun Sjálfsögð krafa um upplýsingar um slit kjaraviðræðna Ragnar Sigurðsson Skoðun Ráðningarvernd samrýmist grunnstoðum lýðræðisins Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun Skoðun Skoðun Töframáttur menntunar og tilbreytingarlaust töðumaul peningatómhyggjunnar Geir Sigurðsson skrifar Skoðun Feilspor kjarasamninga og jákvæð styrking launaafsláttar Davíð Már Sigurðsson skrifar Skoðun Flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli Helga Þórðardóttir skrifar Skoðun Kerecis og innviðauppbygging Arna Lára Jónsdóttir skrifar Skoðun Svar til Höllu – Varasjóður VR Þorsteinn Skúli Sveinsson skrifar Skoðun Sjálfsögð krafa um upplýsingar um slit kjaraviðræðna Ragnar Sigurðsson skrifar Skoðun Fagmenntun er réttur barna en ekki lúxus Bentína Þórðardóttir,Ingibjörg Jónasdóttir,Júlía Guðbrandsdóttir,Sigríður Sigurjónsdóttir skrifar Skoðun Kristið fólk er ekki betra en annað fólk Bjarni Karlsson skrifar Skoðun Þurfa kennarar full laun? Elín Erna Steinarsdóttir skrifar Skoðun Lýðræðið kostar Hákon Gunnarsson skrifar Skoðun Opið bréf til stjórnar Leikfélags Reykjavíkur Margrét Tryggvadóttir skrifar Skoðun Dýrkeypt skiptimynt! María Védís Ólafsdóttir skrifar Skoðun Reykjalundur í 80 ár Pétur Magnússon skrifar Skoðun Ráðningarvernd samrýmist grunnstoðum lýðræðisins Kolbrún Halldórsdóttir skrifar Skoðun Gerræðisleg og hjartalaus leyfisveiting, sem stöðva verður! Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Hugleiðingar leikskólakennara í verkfalli Elín Gíslína Steindórsdóttir skrifar Skoðun Opið bréf til þingmanna frá húsmóður í Vesturbænum Margrét Kristín Blöndal skrifar Skoðun Opið bréf til kennara og stjórnenda allra framhaldsskóla Klara Nótt Egilson skrifar Skoðun Kæra vinkona Margrét Pála María Ösp Ómarsdóttir,Tinna Björg Kristinsdóttir skrifar Skoðun Sjúkraflug í vondri stöðu - hvenær verður brugðist við? Sif Huld Albertsdóttir skrifar Skoðun Fangelsi Framsóknarflokksins Helgi Áss Grétarsson skrifar Skoðun Menntun í gíslingu hrímþursa Þorsteinn Gunnarsson skrifar Skoðun Viltu vinna með framtíðinni? Helga Guðmundsdóttir skrifar Skoðun Færum fanga úr fortíðinni Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar Skoðun Getur hver sem er sinnt besta starfi í heimi? Sveinlaug Sigurðardóttir skrifar Skoðun Hugleiðing um listamannalaun IV Þórhallur Guðmundsson skrifar Skoðun Styðjum Áslaugu Örnu – sameinumst um grunngildin Hópur Sjálfstæðismanna skrifar Skoðun Sjálfbærni íslenskra fyrirtækja er ekki lengur valkostur Ísabella Ósk Másdóttir,Guðni Þór Þórsson,Arent Orri J. Claessen skrifar Skoðun Minnihlutavernd í fjöleignarhúsum Sigurður Orri Hafþórsson skrifar Skoðun Ríkisstjórnin þarf aðhald Svandís Svavarsdóttir skrifar Sjá meira
Í október í fyrra skrifaði ég á þessum vettvangi pistil um tilgang menntunar og víðtækara gildi hennar fyrir samfélag og mannlíf: Menntun er fjárfesting í framtíðinni - Vísir Hér langar mig að bæta við nokkrum hugleiðingum með sérstöku tilliti til ýmissa málefna og atburða sem hafa verið í deiglunni á undanförnum vikum og mánuðum. Kannski endurtek ég eitthvað hér úr fyrri pistli en sannleikurinn er ekki of oft sagður og frumleiki er ekki helsta markmið mitt hér. Menntun er mér almennt mikið hjartans mál, óháð námsstigi. Ég trúi því að menntun og menntakerfi séu lykilþáttur í uppbyggingu og viðhaldi samfélags sem „virkar“ fyrir mannlíf í öllum sínum litríku birtingarmyndum – ekki bara samfélags sem miðar að síaukinni neyslu. En tölum aðeins fyrst um einstaklingana því það er líkast til ekki lengur í tísku að höfða til samfélagskenndar. Menntun er einn stóri lykillinn að hamingju einstaklinganna. Hún getur opnað þeim dyr sem þeir höfðu ekki einu sinni vitað að voru til. Hún getur veitt þeim sjálfsskilning, sjálfstraust sem einkennist af samhygð og víðsýni, varpað nýju ljósi á lífsins gæði, leitt þá inn á skapandi og uppbyggilegar brautir og gjörbreytt til hins betra þeirri forgangsröð sem þeir fylgja í lífinu. Ef vel er að henni staðið getur mennt verið máttur í þessum tilvistarheimspekilega skilningi. Með hliðsjón af þessum töframætti menntunar sætir furðu hversu áhugi landsmanna á menntun er takmarkaður. Það bar t.d. lítið á umræðu um menntun í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga. Annað hvort þykir hún skipta óverulegu máli eða menntakerfi okkar eru talin vera í himnalagi og því engin ástæða til að velta vöngum yfir þeim. En í báðum tilvikum er þetta alrangt. Menntun á öllum skólastigum er alger grundvöllur blómlegs og heilbrigðs mannlífs – í víðum skilningi þeirra orða. Og um leið vanrækjum við kerfin sem við höfum komið okkur upp til að þau hafi svigrúm – og fái nægilega margt hæft fólk til starfa – til að sinna hlutverkum sínum. Æ algengara er að rekast á þær skoðanir að menntakerfin okkar séu of dýr eða ekki nægilega skilvirk með hliðsjón af því sem margir virðast telja vera eina markmið þeirra: að framleiða tæknilega hæfa starfsmenn, stuðla þannig að áframhaldandi hagvexti og auka einkaneyslu. Auðvitað skiptir máli að þjálfa fólk til að gegna ákveðnum störfum svo þeim verði vel sinnt. Og auðvitað skiptir hagvöxtur líka einhverju máli (þótt ég telji vægi hans raunar vera stórlega ofmetið). Og einkaneysla er óhjákvæmileg – upp að vissu marki. Hvað sem því líður eru þessi markmið bara örlítið brot af því sem menntakerfin hafa – eða ættu að hafa – að leiðarljósi. Til hvers viljum við til dæmis að samfélagsmeðlimir kunni að lesa? Varla bara til að þau geti lesið sér til „gagns“ á starfsvettvangi eða skilið leiðbeiningar sem fylgja neysluvörum. Við hljótum að stefna hærra en það. Öll raunveruleg menntun stefnir hærra en það að umbjóðendur þeirra verði einungis að nýtilegum tannhjólum í hagvaxtarmaskínunni. Eða er það kannski ekki lengur svo? Er siðmenningarlegur metnaður dottinn úr tísku? Felum við nú samskiptmiðlum því hlutverki að nostra við sjálfstæða, skapandi og gagnrýna hugsun? Þótt menntakerfin okkar hafi aldrei verið gallalaus hefur staða þeirra versnað verulega á undanförnum árum. Ein birtingarmynd þessarar versnandi stöðu er vangetan til heildrænnar hugsunar um menntun. Kerfin hafa verið brotin í sundur og um leið brotin niður – niðurbrot kerfanna hefur sjálft verið kerfisbundið, eins konar niðurrifsbylting að ofan. Sláandi dæmi um þetta allsherjar niðurbrot var þegar málefni háskólanna voru rifin úr samfellu menntunar á öðrum skólastigum og skeytt saman við nýsköpun og iðnað á kjörtímabili síðustu ríkisstjórnar. Það markaði innreið eyðileggjandi nýfrjálshyggjunálgunar inn í menntakerfi okkar, nálgunar sem hefur verið að ryðja sér rúms á flestum sviðum samfélagsins og gerir raunar út af við nánast öll sameiginleg hagsmunamál samfélagsins sem hún kemur nálægt með því að fórna þeim á altari peningatómhyggju og grafa undan getunni til að skilja tilgang samfélagslegra stofnana í heildarsamhengi. Um þetta eru ótal dæmi erlendis frá, en samt hefur verið haldið áfram á sömu niðurrifsbrautinni hér á landi, líklega vegna þess að einhverjir sjá sér persónulega hagnaðarvon einhvers staðar í ferlinu. Án þess að tíunda hér alla þá skemmdarverkastarfsemi sem fyrrum ráðherra háskólamála stóð fyrir á síðasta kjörtímabili – að mestu vegna hugmyndafræðilegrar blindu, oflætis og augljósrar vanþekkingar á viðfangefni sínu – verður þeim létti vart lýst þegar ráðherra hrökklaðist loks frá. Ný ríkisstjórn hefur nú sett háskólamálin í samhengi menntunar og nýsköpunar, sem er vissulega skömminni skárra, en það er miður að hún hafi ekki tekið heildrænni afstöðu í nálgun sinni á menntamálin. Ég hef vissulega skilning á þeirri framvindu sem leitt hefur til þess að margir koma ekki auga á gildi háskólamenntunar nema sem tæki til að kynda undir hagvöxt og nýsköpun í atvinnulífinu. Háskólar hafa mikið breyst á undanförnum áratugum og stærstur hluti hins „hagnýta“ sérnáms sem áður var innan veggja sérskóla er nú orðinn að háskólagreinum. Fyrir þessu eru ýmsar ástæður, margar vondar, aðrar eilítið skárri, en hvað sem öðru líður er staðreyndin sú að hinar svokölluðu „hagnýtu“ (starfstengdu) greinar eru nú í meirihluta þeirra námsleiða sem háskólarnir bjóða upp á. Þetta breytta vægi hefur sett aukinn þrýsting á þær greinar háskólanna sem leiða ekki nauðsynlega til tiltekinna starfa. En nálarauga þessa þrönga gildismats missir sjónar á víðtækari tilgang menntunar. Flestar greinar hug- og félagsvísinda hafa snúist um að gera okkur kleift að dýpka þann skilning sem við höfum á stöðu okkar innan mannlegs og náttúrulegs umhverfis, efla sköpunargáfuna, auka getuna til að vera ábyrgir og gagnrýnir þátttakendur í lýðræðissamfélagi og móta sér viðhorf og jafnvel „smekk“ sem gerir meiri kröfur til þeirra sjálfra. Með þessu síðasta á ég við að rækta með sér þá hæfni að njóta flóknari og dýpri athafna, lista, bókmennta og kannski einmitt getu til þess að halda stöðugt áfram að læra og auðga sig með andlegum hætti. Allt þetta krefst þjálfunar og gott samfélag er samfélag þar sem fólk fær næg tækifæri til að fága sig með þessum hætti, stuðla þannig að eigin hamingju og þar með um leið að hamingju annarra í kringum sig. Slíkt samfélag er jafnframt líklegra til að virða leikreglur lýðræðisins og átta sig á gildi réttlætis og sanngirni sem skipta sköpum fyrir áframhaldandi tilvist eiginlegs „sam-félags“. Þessi gæði verða einfaldlega ekki mæld í kassalaga eyðum excel-skjalanna. Það er merkilegt hvað mikil heift virðist ríkja í garð fólks sem hefur lagt stund á nám sem leiðir ekki beinlínis til ákveðinna starfa, oftast vegna ástríðufulls áhuga á afmörkuðum þáttum mannlífs og menningar. Þau eru ósjaldan sögð „gagnslaus“, einungis vegna þess að krónurnar og aurarnir sem koma inn í kassann verða ekki auðveldlega taldir. Eftir að kunngert var að gjaldeyristekjur af listum væru verulegar hefur því auðvitað verið haldið mjög á lofti, enda eru það einu rökin sem margir virðast geta meðtekið, en þetta ætti í besta falli að vera aukaatriði þegar verðmæti lista er annars vegar. Á stundum hef ég heyrt því fleygt að meina ætti eldri samfélagsmeðlimum að sækja háskólanám, því þeir ætli hvort sem er ekki að stunda störf sem tengjast þeim. Svo hörð er gagnsemiskrafan orðin – og gagnsemin þá jafnan mæld í tekjum – að ætla mætti að góður efnahagur væri ekki tæki til að auðga mannlífið heldur öfugt. Erum við virkilega komin alla leið þangað? Þessi árátta í kringum störf og starfsvettvang er nefnilega birtingarmynd peningatómhyggjunnar. Ekki ætla ég að hafa langt mál um hana en það er umhugsunarefni þegar ein ríkasta þjóð heims virðist hafa svo miklar áhyggjur af því að geta ekki stöðugt aukið neyslu sína að hún treystir sér ekki til að fjármagna eigin grunnstoðir. Ég fullyrði að við gætum verið helmingi fátækari og samt rekið samfélag þar sem langflestir hefðu það býsna gott ef menntunarstigið væri hærra – og misskiptingin minni. Sagt hefur verið að á einu ári breytist allt en á hundrað árum breytist ekki neitt. Í ræðu sinni sem háskólarektor árið 1922 mælti Sigurður Nordal eftirfarandi orð sem eiga ekki síður við í dag en fyrir hundrað árum: „Maðurinn lifir ekki á einu saman brauði. Maðurinn lifir alls ekki á brauði. Brauðið bjargar honum frá að deyja. Maðurinn lifir á ævintýrunum. Án þess væri lífið ekki líf og maðurinn ekki maður. Það er óþarfinn svo nefndi, þau verðmæti lífsins, sem varpa yfir það ljóma fegurðar og ímyndunar, sem gerir daglega lífið þolanlegt. Heldur eigum vér að spara allt við oss hversdagslega, og kunna svo að halda hátíð á milli, en gera allt lífið að tilbreytingarlausu töðumauli.“ („Trúin á ævintýrin“, List og lífsskoðun III, s. 218) Nú hefur verkfall skollið á hjá leik- og grunnskólakennurum (og framhaldskólakennarar og prófessorar í ríkisháskólum fylgja líklega í kjölfarið en þau mál læt ég liggja milli hluta hér). Margir landsmenn agnúast yfir þessu – sumir fara jafnvel í dómsmál (eins og það gæti leyst vandann – héldu þeir að hægt sé að hlekkja kennara við vinnustaði sína?) – án þess að hafa skýra hugmynd um þau verkefni og þær aðstæður sem mæta þessum stéttum. Í fyrri pistli impraði ég á aðstæðum leikskólakennara en sú eymdarsaga verður ekki of oft sögð. Flestir íslenskir leikskólar eru nú að mestum hluta mannaðir af ómenntuðu starfsfólki, oft ungmennum, sem hefur ekki þjálfun til að sinna störfum sínum, hefur sjaldnast sérstakan áhuga á þeim, sem faglært fólk þarf þess vegna líka að fylgjast vel með og raunar síendurtekið að þjálfa því flest staldra þau stutt við. Þetta eru óboðlegar aðstæður fyrir faglært starfsfólk sem valda þeim óþarfa álagi og ekki síður skiljanlegri gremju því það hindrar þau í að sinna störfum sínum. Þetta eru líka óboðlegar aðstæður fyrir leikskólanemendur sem margir hverjir þurfa á því að halda að fagaðilar hafi tækifæri til að greina hvar þeir standa höllum fæti og grípa inn í með markvissum aðgerðum (snemmtækri íhlutun) til að „byrgja brunninn“. Já, máltækið allt á svo sannarlega vel við í þessu samhengi. Því þetta eru líka óboðlegar aðstæður fyrir samfélagið. Snemmtæk íhlutun eru líka töfrar en – þegar best tekst til – töfrar sem enginn tekur eftir, því þeir felast í því að koma í veg fyrir að barnið fari snemma út af sporinu, finni sig ekki í grunnskóla, flosni upp og verði ógæfusamur einstaklingur sem þurfi á alls kyns (mjög kostnaðarsamri) aðstoð hins opinbera að halda í framtíðinni. Í upphafi skal endinn skoða. Ástandið á leikskólum – og um grunnskóla gildir í meginatriðum hið sama – má rekja til þess að störfin eru óþarflega krefjandi vegna undirmönnunar og vegna þess að skólarnir neyðast til að ráða of margt ófaglært fólk. Það er fjarri því að ég sé að hnýta í þetta fólk en staðreyndin er sú að það hefur ekki hlotið tilskilda þjálfun – menntun – til að sinna störfum sínum og getur því jafnvel einfaldlega verið til trafala. Og þá fer vítahringurinn í gang. Hverjum hugnast að leggja á sig fimm ára háskólanám og starfa svo á vettvangi þar sem launin eru varla umtalsvert hærri en fyrir að afgreiða í verslun, þurfa að standa í því að slökkva elda alla daga og brenna svo sjálf út innan tuttugu ára? Markmiðið hlýtur að vera að laða áhugasamt fólk að því að halda í námið, öðlast haldbæran skilning og kunnáttu til að gegna störfunum og beita töfrum sínum til að stuðla að hamingju einstaklinganna og þar með blómlegra samfélagi. Sem þjóð verðum við að hætta að hugsa í fjögurra ára athyglisbresti stjórnmálanna og hugsa til lengri framtíðar. Við verðum að hætta að hugsa um menntakerfið sem „óheppilegan kostnað“ og hugsa um það sem nauðsynlegan grundvöll þess að geta átt sjálfbært samfélag um ókomna tíð. Við þurfum líka að hugsa um það heildrænt sem sameiginlegan vettvang okkar til að gera úr garði samfélag sem „virkar“ fyrir alla. Og svo verðum við almennt að brjótast út úr peningatómhyggjunni eða því „tilbreytingarlausa töðumauli“ að einskorða gildismat við þrönga fjárhagslega mælikvarða. Umfram allt þurfum við að efla andlegar nautnir og sérstaklega getuna til að njóta þeirra. Þótt þær krefjist tíma, þjálfunar og nosturs eru þær á endanum ekki bara ódýrari, skilvirkari og uppbyggilegri en hinar efnislegu, heldur líka mun sjálfbærari og umhverfisvænni. Síðast en ekki síst eru það einmitt þær sem gera mannlífið að því sem það er – eða gæti vonandi orðið. Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands
Fagmenntun er réttur barna en ekki lúxus Bentína Þórðardóttir,Ingibjörg Jónasdóttir,Júlía Guðbrandsdóttir,Sigríður Sigurjónsdóttir Skoðun
Skoðun Töframáttur menntunar og tilbreytingarlaust töðumaul peningatómhyggjunnar Geir Sigurðsson skrifar
Skoðun Fagmenntun er réttur barna en ekki lúxus Bentína Þórðardóttir,Ingibjörg Jónasdóttir,Júlía Guðbrandsdóttir,Sigríður Sigurjónsdóttir skrifar
Skoðun Sjálfbærni íslenskra fyrirtækja er ekki lengur valkostur Ísabella Ósk Másdóttir,Guðni Þór Þórsson,Arent Orri J. Claessen skrifar
Fagmenntun er réttur barna en ekki lúxus Bentína Þórðardóttir,Ingibjörg Jónasdóttir,Júlía Guðbrandsdóttir,Sigríður Sigurjónsdóttir Skoðun