Fótbolti

Dansari smyglaði inn fánum á sýninguna á Super Bowl

Sindri Sverrisson skrifar
Dansarinn var með fána Súdan og Palestínu og veifaði þeim meðal annars á meðan hann stóð ofan á bíl í sýningunni.
Dansarinn var með fána Súdan og Palestínu og veifaði þeim meðal annars á meðan hann stóð ofan á bíl í sýningunni. Twitter

Einn af þeim fjölmörgu dönsurum sem tóku þátt í hálfleikssýningu rapparans Kendrick Lamar á Super Bowl í nótt hafði falið fána innan klæða sem hann veifaði svo á meðan sýningin fór fram. Hann er nú í haldi lögreglunnar í New Orleans.

Maðurinn veifaði fánum Palestínu og Súdans en á fánunum stóð skrifað „Gaza“ og „Súdan“.

NFL hefur staðfest að maðurinn var á meðal þeirra 400 sem tóku þátt í hálfleikssýningunni en uppátæki hans var hins vegar alls ekki hluti af sýningunni.

„Þessi einstaklingur faldi hlutinn á sér og sýndi hann seint í sýningunni. Enginn sem kom að sýningunni vissi af ætlunarverki hans,“ sagði í tilkynningu frá NFL.

Lögreglan í New Orleans sagði að nú væri verið að skoða hvort og þá fyrir nákvæmlega hvað maðurinn yrði ákærður.

Borgarastyrjöld hefur staðið yfir í Súdan frá árinu 2023 og stór hluti Gaza er eyðilagður eftir 18 mánaða stríð Ísraels og Hamas-samtakanna.

Myndbönd á netinu sýna að maðurinn með fánana var nokkuð fljótlega stöðvaður og honum komið í burtu. Ekki virðist hafa sést til hans í sjónvarpsútsendingunni.

Super Bowl er vinsælasti íþróttaviðburður hvers árs í Bandaríkjunum. Í leiknum í nótt unnu Philadelphia Eagles yfirburðasigur gegn Kansas City Chiefs, 40-22, fyrir framan fjölda stjarna úr tónlistar- og leiklistarheiminum sem og Bandaríkjaforsetann Donald Trump.


Tengdar fréttir

Ernirnir flugu hátt í Super Bowl og rassskelltu meistarana

Philadelphia Eagles tryggði sér sigur í Super Bowl með afar sannfærandi hætti í nótt og endaði með því tveggja ára sigurgöngu Kansas City Chiefs. Eagles bauð upp á rosalega rassskellingu og vann leikinn með átján stiga mun, 40-22.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×