Vinstri grænir þurrkuðust sem kunnugt er út af þingi í nýafstöðnum Alþingiskosningum, og það sem enn verra er - út af fjárlögum í leiðinni. Vandséð er hvað Vinstri grænir telja sig græða á því að selja Sósíalistum þrotabúið.
Sá vinstri meirihluti sem er í fæðingu er sérkennilegur bútasaumur, og algerlega á skjön við pólitíska þróun í landinu. Enginn vinstri flokkur að Samfylkingu undanskilinni komst inn á þing í síðustu þingkosningum. Nýleg könnun Viðskiptablaðsins um fylgi í borginni gefur til kynna stórsókn Sjálfstæðisflokksins á kostnað flestra þeirra flokka sem nú ætla að mynda meirihluta.
Meirihlutinn virðist því myndaður um völd og ekkert annað, einkum í ljósi sérkennilegra yfirlýsinga oddvita Samfylkingarinnar í Silfrinu í vikunni. Þar virtist hún reiðubúin að fórna þrjátíu ára arfleifð flokks síns í borginni fyrir það eitt að vera áfram í meirihluta í nokkra mánuði.
Vandséð er hvað Vinstri grænir telja sig græða á því að selja Sósíalistum þrotabúið.
Vinstri grænir munu einfaldlega hverfa í þessu meirihlutamynstri og verða um leið undirdeild í Sósíalistaflokknum. Flokkurinn virðist ætla að taka yfirtökutilboði Gunnars Smára.
Líf Magneudóttir hefur einstakt tækifæri til að ná sérstöðu í samstarfi við Sjálfstæðisflokk, Framsókn og Viðreisn. Þar er hún í góðri samningsstöðu og getur tryggt sér áhrif og sýnileika. Vinstri græn hafa tvo valmöguleika. Þau geta sýnt að þau er ábyrga og stjórntæka vinstrið, eða gefist upp og fullkomnað niðurlæginguna sem undirdeild í Sósíalistaflokknum
Hildur hallar sér aftur
Oddviti Sjálfstæðisflokksins hefur talað af ábyrgð og festu undanfarna viku og skorið sig þar úr hópi kollega sinna. Furðulegu útspili Flokks fólksins tók hún með jafnaðargeði. Sama má segja um Þórdísi Lóu, oddvita Viðreisnar.
Hvert vandræðamálið á fætur öðru úr borgarstjórn, og nú er engin Framsókn til að taka sökina. Hvaða áhrif hefur það á ríkisstjórnina?
Þær stöllur eru báðar á uppleið í könnunum og vita sennilega sem er að meirihluti Villta vinstrisins verður sannkölluð veisla fyrir minnihlutann í borgarstjórn. Pólitískir hagsmunir þeirra eru einfaldlega að halla sér aftur, láta þetta gerast og lemja svo á þessum ósamstæða bútasaumi úr minnihluta.
Sennilega getur ekkert komið í veg fyrir hægri meirihluta í borginni að fimmtán mánuðum liðnum.
Kristrún Frostadóttir og kollegar hennar í ríkisstjórn hljóta að hugsa til næstu mánaða með hryllingi. Hvert vandræðamálið á fætur öðru úr borgarstjórn, og nú er engin Framsókn til að taka sökina. Hvaða áhrif hefur það á ríkisstjórnina?
Ráðgjafinn er innanbúðarmaður sem tekur púlsinn á stöðunni innan stjórnmála og atvinnulífs.