Real Madrid tryggði sér sigur með tveimur mörkum í blálok leiksins eftir að Haaland hafði komið City tvisvar sinnum yfir í leiknum. Úrslitin voru sárgrætileg fyrir City og viðbót við öll vonbrigðin á leiktíðinni.

Manchester Evening News vakti athygli á samskiptum Haaland og Mbappé strax eftir leikinn.
Sá norski sást þá snöggreiðast og strunsa inn í klefa eftir rifrildi við franska framherjann.
Haaland á að hafa brunað beint inn í búningsklefa og leit ekki við liðsfélögum sínum á leiðinni þangað. Samkvæmt fréttinni var hann fyrstur inn í klefa.
Haaland hafði áður tekið í hendina á Carlo Ancelotti, þjálfara Real Madrid, en svo fauk í hann vegna einhvers sem Mbappé sagði við hann.
„Hegðun Haalands eftir lokaflautið segir mikið um hver staðan er hjá Manchester City núna,“ skrifaði blaðamaður Manchester Evening News.
Við fáum kannski að vita það einhvern tímann hvað Mbappé sagði við þann norska sem fékk hann til að bregðast svona við. Kannski var kappinn bara svona tapsár.