Fótbolti

Dómarinn sem dæmdi víti á Víkinga fór í rangan skjá

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Elís Þrándarson, fyrirliði Víkinga, ræðir við dómarann Rohit Saggi í leiknum á móti Panathinaikos í kvöld.
Aron Elís Þrándarson, fyrirliði Víkinga, ræðir við dómarann Rohit Saggi í leiknum á móti Panathinaikos í kvöld. Getty/Ville Vuorinen

Víkingar fengu á sig umdeilt víti í kvöld í 2-1 sigri á Panathinaikos í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í sextán liða úrslitum Sambandsdeildarinnar.

Grikkirnir björguðu andlitinu með því að skora úr vítinu og það munar miklu fyrir Víkingsliðið að fara suður til Grikklands með eitt mark í forskot í staðinn fyrir að vera tveimur mörkum yfir.

Það eru ekki aðeins Víkingar eða Íslendingar sem voru ósáttir við vítaspyrnudóminn.

Don Hutchison, sem var að lýsa leiknum á TNT Sports, skildi ekkert í dómnum. Eurosport fjallaði um viðbrögðin í myndverinu.

„Þú getur ekki dæmt hendi á þetta,“ sagði Hutchison. „Það er ekki hægt.“

„Ég veit að fólk segir að höndin hans eigi ekki að vera þarna en miðvörðurinn var að skalla boltann í hann af mjög stuttu færi. Þetta getur ekki verið víti,“ sagði Hutchison.

„Þú verður að taka það til greina að liðsfélaginn var að skalla boltann í höndina,“ sagði Hutchison.

Norski dómarinn Rohit Saggi fór í fyrstu ekki í réttan skjá til að skoða atvikið. Það þurfti að kalla til hans og láta hann fara í réttan skjá.

James Horncastle hafði mjög gaman af því. „Ó hann fékk ekki rétta VAR þarna. Hann fór í rangan skjá. Það þurfti að leiðbeina honum að réttum skjá. Það er alltaf slæm byrjun fyrir dómara,“ sagði Horncastle.

Sérfræðingar TNT Sports komust þó fljótlega að því að dómarinn var ekki að dæma á hendi heldur fann hann annað brot rétt á eftir og dæmdi vítið á það.  Það má lesa meira um samtalið í settinu með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×