Viðskipti erlent

Raf­myntar­for­stjóri játar sig sekan um að fé­fletta við­skipta­vini

Kjartan Kjartansson skrifar
Alex Mashinsky, þá forstjóri Celsius, í bol sem á stendur „Bankar eru ekki vinir þínir“ árið 2021. Á endanum reyndist hann ekki vinur viðskiptavina Celsius heldur. Hann hefur játað sig sekan um að blekkja þá til að græða á þeim.
Alex Mashinsky, þá forstjóri Celsius, í bol sem á stendur „Bankar eru ekki vinir þínir“ árið 2021. Á endanum reyndist hann ekki vinur viðskiptavina Celsius heldur. Hann hefur játað sig sekan um að blekkja þá til að græða á þeim. Vísir/Getty

Stofnandi og fyrrverandi forstjóri rafmyntafyrirtækisins Celsius, játaði sig sekan um fjársvik fyrir dómstól í New York á þriðjudag. Hann var ákærður fyrir að blekkja viðskiptavini til að fjárfesta í rafmynt sinni á sama tíma og hann seldi eigin hlut á uppsprengdu verði.

Alríkissaksóknarar ákærðu Alex Mashinsky upphaflega fyrir fjársvik, samsæri og markaðsmisnotkun árið 2023, ári eftir að Celsius fór í þrot. Þeir sökuðu hann um að villa um fyrir viðskiptavinum til þess að fá þá til að fjárfesta í rafmynt fyrirtækisins og spenna upp verð rafmyntarinnar á fölskum forsendum.

Mashinsky neitaði upphaflega sök en gerði síðan sátt við saksóknara. Þegar hann kom fyrir dómara á þriðjudag játaði hann sig hins vegar sekan í tveimur ákæruliðum af sjö: sýndarviðskipti og markaðsmisnotkun til þess að hafa áhrif á gengi CEL-rafmyntar fyrirtækisins, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Fyrir dómi játaði Mashinsky meðal annars að hafa blekkt viðskiptavini Celsius með því að fullyrða ranglega í viðtali árið 2021 að fyrirtækið hefði fengið vottun frá eftirlitsaðilum fyrir fjárfestingaleið sína. Þá hefði hann heldur ekki greint frá því að hann hefði selt eigin CEL-rafmyntir.

Saksóknarar segja að Mashinsky hafi hagnast persónulega um 42 milljónir dollara, jafnvirðri tæpra sex milljarða íslenskra króna, á því að selja CEL-rafmyntir á uppsprengdu verði. Viðskiptavinir hans hafi aftur á móti setið í súpunni þegar fyrirtækið varð gjaldþrota.

„Ég veit að það sem ég gerði var rangt og ég vil gera hvað sem ég get til þess að bæta fyrir það,“ sagði fyrrverandi forstjórinn fyrir dómi.

Sáttin sem Mashinsky gerði felur það meðal annars í sér að hann fellst á að áfrýja ekki fangelsisdómi sem er þrjátíu ár eða skemmri. Þrjátíu ár eru hámarksrefsing sem liggur við brotunum tveimur sem hann játaði sig sekan um. Ákveða á refsingu hans í apríl.


Tengdar fréttir

For­stjóri Celsius stígur til hliðar

Forstjóri rafmyntaverkvangsins Celsius, Alex Mashinsky hefur ákveðið að segja af sér en verkvangurinn lýsti yfir gjaldþroti þann 13. júlí síðastliðinn.

Raf­mynta­bransinn í úlfa­kreppu á nýju ári

Samdráttur, uppsagnir og lögsóknir hafa einkennt fyrstu daga nýs árs í rafmyntabransanum sem varð fyrir hverju högginu á fætur öðru í fyrra. Tveir fyrrverandi forstjórar fallinna fyrirtækja standa frammi fyrir sak- og málsóknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×