Fundurinn hefst klukkan tvö í Valhöll en þá munu félagsmenn í Heimdalli koma saman og samþykkja eða synja þeim lista af þeim fulltrúum sem stjórn félagsins hefur ákveðið að senda á Landsfund flokksins sem fram fer um mánaðamótin. Landsfundur samanstendur af fulltrúum sem ýmis félög innan flokksins senda á fundinn og komast færri að en vilja nú þegar baráttan um nýjan formann magnast.
Júlíus Viggó Ólafsson, formaður Heimdallar segir það ekki koma á óvart ef fundurinn á eftir verði vel sóttur.
Er barist um sætin eða hvernig lýsir þú þessu?
„Það er alltaf áhugi held ég og það hefur líka verið mikill upptaktur í starfinu hjá okkur í Heimdalli undanfarið þannig það myndi ekki koma mér á óvart ef það verður fjölmenni á eftir.“
Heimdallur er hlutfallslega með nokkuð mörg sæti á Landsfundi eða 44.
Í vikunni greindi Sjálfstæðismaður til áratuga, hallarbyltingu á hverfisfundi í Fossvogi þar sem listi með nöfnum þeirra fulltrúa sem félagið sendir á landsfund var borinn upp til samþykktar. Sagði hann í frétt á Vísi að augljóslega hefði verið smalað á fundinn og að hann, fyrrverandi formaður félagsins, hefði ekki fengið sæti á landsfundi.
Ljóst er að það stefnir í smölun á fund Heimdallar á eftir en í skilaboðum sem fréttastofa hefur undir höndum er viðtakandi beðinn um að mæta á fund Heimdallar til að kjósa tiltekinn lista og skrá sig svo bara úr flokknum eftir fundinn.

Línur á landsfundi hafi ekki áhrif á fulltrúaval
Júlíus Viggó hefur opinberlega komið fram sem stuðningsmaður Guðrúnar Hafsteinsdóttur en hann hélt meðal annars ræðu á framboðsfundi hennar í Salnum í Kópavogi síðustu helgi. Hann segir línur á landsfundi ekki lita val félagsins á fulltrúum.

Er von á átökum á fundinum á eftir með tilliti til þess að það eru tveir í framboði til formanns?
„Ég veit það ekki, það er aldrei neitt útilokað. Við höfum unnið okkar tillögu, sem mun verða endanlega ákveðin á stjórnarfundi hjá Heimdalli á eftir, af heilindum og erum að vinna eftir því að skoða hverjir hafa verið virkir í starfinu og alls kyns sjónarmið. Þau sjónarmið eru aðallega þannig, hver hefur verið virkur í starfinu og kannski ef gamlir formenn hafa sótt um. Það hafa ekki ráðið för einhverjar línur á landsfundi og ég vona innilega að það fari nú ekki að hafa áhrif á val landsfundarfulltrúanna.“