Handbolti

Reynsluboltinn fann sér nýtt lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrine Lunde í einum af síðustu leikjum sínum með liði Vipers Kristiansand en þessi var í Meistaradeildinni i janúar.
Katrine Lunde í einum af síðustu leikjum sínum með liði Vipers Kristiansand en þessi var í Meistaradeildinni i janúar. Getty/Stefan Ivanovic

Norski markvörðurinn Katrine Lunde er búin að finna sér nýtt lið. Langur og glæsilegur ferill hennar lengist því enn.

Lunde er 44 ára gömul og hafði spilað síðustu átta árin með Vipers Kristiansand í Noregi. Áður lék hún með sterkum liðum eins og Aalborg, Viborg, Györ, og Rostov-Don.

Vipers fór hins vegar á hausinn um miðjan janúar og því voru allir leikmenn liðsins án félags á miðju tímabili. Lunde hefur síðan verið að leita sér að nýju félagi.

Nýja lið Lunde er Odense í dönsku deildinni. Danirnir eru að fá engan smá liðstyrk en Lunde hjálpaði norska landsliðinu að vinna bæði Ólympíugull og EM-gull á síðasta ári.

„Ég hlakka rosalega til að vinna með stelpunum og markvarðarteyminu þar. Ég þekki nokkra leikmenn og þjálfarann mjög vel. Ég vona að það hjálpaði mér að komast fljótt inn í allt þarna,“ sagði Katrine Lunde við NRK.

Katrine Lunde verður nú liðsfélagi Maren Aardahl, Malin Aune, Helene Fauske, Ragnhild Valle Dahl og Thale Rushfeldt Deila sem hafa verið með henni í norska landsliðinu. Norðmaðurinn Ole Gustav Gjekstad þjálfar liðið.

Odense vann síðast danska titilinn árið 2022 en liðið varð í þriðja sæti á síðasta tímabili og í öðru sæti árið á undan. Nú er Odense á toppi deildarinnar með átján sigra í átján leikjum. Það eru því talsverðar líkur á því að þessi sigursælasta handboltakona sögunnar sé að fara að bæta við fleiri titlum í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×