Enski boltinn

Arsenal lét heitasta framherjann í frönsku deildinni fara fyrir „slikk“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mika Biereth á fullri í leik með Mónakó liðinu þar sem hann hefur byrjað frábærlega síðan hann kom í janúar.
Mika Biereth á fullri í leik með Mónakó liðinu þar sem hann hefur byrjað frábærlega síðan hann kom í janúar. Getty/Jean Catuffe

Mika Biereth hefur slegið í gegn í fyrstu leikjum sínum með Mónakó í frönsku deildinni en það vita kannski ekki allir að hann var leikmaður Arsenal fyrir ekki svo löngu.

Í allri umræðunni um framherjahallæri há Arsenal þá er Mika Biereth að raða inn mörkum hjá Mónakó.

Biereth er 22 ára og 187 sentímetra framherji. Arsenal seldi hann til austurríksfélagsins Sturm Graz í júlí síðastliðnum fyrir fjórar milljónir punda eða rúmar sjö hundruð milljónir íslenskra króna.

Sturm Graz seldi hann svo fyrir þrettán milljónir evra til Mónakó í síðasta mánuði eða 1,9 milljarða króna. Austurríkismennirnir græddu því meira en milljarð í íslenskum krónum á þessum nokkrum mánuðum.

Biereth hafði skorað 11 mörk og gefið 5 stoðsendingar í 16 deildarleikjum með Sturm Graz þegar hann var seldur.

Hann hefur síðan skorað sjö mörk i fyrstu fimm leikjum sínum með Mónakó þar af þrennu í tveimur síðustu heimaleikjum liðsins á móti Auxerre og Nantes.

Á þessu tímabili er hann því kominn með 18 mörk í 21 deildarleik í Austurríki og Frakklandi.

Það fylgir þó sögunni að Biereth spilaði aldrei fyrir aðallið Arsenal því hann var lánaður til Hollands, Skotlands og Austurríkis á tíma hans hjá Lundúnafélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×