Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá rannsóknaskipið Árna Friðriksson sigla inn til heimahafnar í Hafnarfirði í hádeginu eftir ellefu daga loðnuleit. Þetta er þriðja leitin sem efnt er til frá áramótum en fyrri leitir hafa ekki skilað nægilegu magni til að vísindamenn treysti sér til að mæla með loðnuveiðum.
Í útvegsgeiranum halda menn enn í þá veiku von að það gæti þrátt fyrir allt orðið loðnuvertíð. Mæligögnin sem vísindamenn komu með í land úr leiðangrinum í dag ráða úrslitum.

Auk Árna Friðrikssonar tóku fiskiskipin Heimaey og Polar Ammassak þátt í leitinni sem að þessu sinni beindist að miðunum undan norðan- og norðvestanverðu landinu. Leiðangursstjóri var sjávarlíffræðingurinn Teresa Silva frá Portúgal. En sáu þau eitthvað af loðnu?
„Já, við sáum loðnu núna við Norðurland, í austur. Það var svolítið meiri kynþroska loðna sem við sáum þar en var ekki mikið í janúar þar.“
-En er þetta þá loðna sem þið voruð að sjá sem hefur ekki mælst áður? Þetta sé kannski viðbót?
„Já, þetta er ný loðna sem var að koma inn, já,“ svarar Teresa, sem er doktor í sjávarlíffræði.

Hún hóf strax eftir leiðangurinn í dag að rýna í gögnin ásamt samstarfsmönnum sínum hjá Hafrannsóknastofnun.
„Já, við erum að rannsaka gögn núna í dag og á morgun og kannski klárum það á morgun.“
-Og hvenær koma svo svörin?
„Kannski á morgun. Við sjáum til.“
En það er lítill tími til stefnu. Aðalhrygningarganga loðnunnar var í dag talin vera undan Þorlákshöfn. Loðnan er sennilega að komast í sitt allra verðmætasta form, að verða hrognafull rétt fyrir hrygningu.

Leiðangur Árna Friðrikssonar var sá síðasti í loðnumælingum á þessari vertíð. Útgerðin sendi hins vegar fiskiskipið Heimaey út í dag til að mæla loðnugönguna við Þorlákshöfn.
-En er ennþá smávon um loðnuvertíð?
„Ég skal segja þeir ekki neitt núna. Bara, við sjáum til á morgun,“ svarar leiðangursstjórinn Teresa Silva og hlær.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: