Leik lokið: Slavia Prag - Valur 22-22 | Vals­konur í undanúr­slit EHF-bikarsins

Hinrik Wöhler skrifar
Valskonur eru tryggðu sér farseðilinn í undanúrslit Evrópubikarkeppni kvenna í handbolta með jafntefli í N1-höllinni í dag.
Valskonur eru tryggðu sér farseðilinn í undanúrslit Evrópubikarkeppni kvenna í handbolta með jafntefli í N1-höllinni í dag. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Valskonur eru komnar alla leið í undanúrslit EHF-bikarsins í handknattleik eftir að hafa gert jafntefli gegn Slavia Prag í seinni leik liðanna í 8-liða úrslitum í dag. Valur sigraði tékkneska liðið með sjö mörkum í fyrri leiknum í gær og voru í kjörstöðu fyrir leikinn í dag.

Þær tékknesku voru staðráðnar að keyra upp hraðann og vinna upp sjö marka forskot Vals hratt og örugglega. Valskonum gekk ágætlega í sókninni á upphafsmínútum leiksins en þegar leið á fyrri hálfleik fór að síga á ógæfuhliðina.

Valskonum var fyrirmunað að skora um miðbik fyrri hálfleiks og Tékkarnir refsuðu hinum megin með mörkum úr hraðaupphlaupum eða seinni bylgju.

Tékkneski markvörðurinn, Michaela Malá, reyndist Valskonum erfið viðureignar.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Þegar leið á fyrri hálfleik var staðan orðin 12-6, Slavia Prag í vil, og samanlagt forskot Vals úr einvíginu aðeins orðið að einu marki. Tékkneski markvörðurinn, Michaela Malá, varði eins og berserkur á þessum tímapunkti en hún endaði fyrri hálfleikinn með 47% markvörslu.

Valur náði aðeins betri takti undir lok fyrri hálfleiks og var sóknarleikurinn beittari. Það munaði fimm mörkum á liðunum þegar leikmenn gengu til búningsherbergja í hálfleik og ljóst var að allt gæti gerst í einvíginu.

Lovísa Thompson reynir skot að marki.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Valskonur komu agaðri til leiks í seinni hálfleik. Þær náðu að þétta varnarleikinn og markvarslan datt inn. Sömuleiðis fór skotnýtingin batnandi á hinum enda vallarins.

Þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik var staðan 17-14 fyrir tékkneska liðinu og Valskonur með fjögurra marka forskot í einvíginu.

Í kjölfarið kom kafli þar sem Hafdís Renötudóttir varði allt sem á markið kom og Valur kom sér hægt og rólega inn í leikinn.

Hafdís Renötudóttir var með rúmlega 50% markvörslu í seinni hálfleik.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Þegar fimm mínútur voru eftir náði Elín Rósa Magnúsdóttir loks að jafna leikinn í 21-21 og ljóst var að farseðillinn í undanúrslit var gott sem tryggður.

Leikurinn endaði með jafntefli 22-22 og sigruðu Valskonur einvígið samtals 50-43. Þær etja kappi við Iuventa Michalovce frá Slóvakíu í undanúrslitum og fara leikirnir fram í lok mars.

Atvik leiksins

Eftir ansi brösótta byrjun var leikmönnum og stuðningsmönnum létt þegar Valskonur náðu að koma sér aftur inn í leikinn. Elín Rósa Magnúsdóttir jafnaði loks leikinn þegar fimm mínútur voru eftir við fögnuð viðstaddra og kórónaði endurkomu Vals og sigurinn í einvíginu.

Elín Rósa Magnúsdóttir skoraði fjögur mörk í dag úr tíu skotum.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Stjörnur og skúrkar

Það var allt annað sjá Val í seinni hálfleik í dag og skoruðu Tékkarnir aðeins átta mörk í seinni hálfleik.

Hafdís Renötudóttir, markvörður Vals, varði rúmlega 50% af þeim skotum sem kom á markið í seinni hálfleik og lagði grunninn að jafnteflinu í dag. Hildigunnur Einarsdóttir og Hildur Björnsdóttir voru öflugar í hjarta varnarinnar og héldu Tékkunum í skefjum.

Hildigunnur Einarsdóttir var baráttuglöð í vörninni.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Líkt og í leiknum í gær var Þórey Anna Ásgeirsdóttir markahæst með átta mörk úr jafnmörgum tilraunum og var einstaklega örugg á vítalínunni og í hægra horninu.

Tékkneski markvörðurinn, Michaela Malá, reyndist Valskonum erfið en skotnýtingin hefur sannarlega verið betri hjá máttarstólpum liðsins.

Dómarar

Franska dómaraparið, Mathilde Cournil og Loriane Lamour, dæmdu báða leikina í einvíginu.

Mathilde Cournil og Loriane Lamour voru með fín tök á báðum leikjunum í einvíginu.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Dómararnir stóðu sig ágætlega en Valskonur voru ekki sérlega sáttar með dómara leiksins í fyrri hálfleik en Valskonur fengu fjórar tveggja mínútna brottvísanir með stuttu millibili og oft fyrir litlar sakir.

Stemning og umgjörð

Valsarar opnuðu húsið 90 mínútum fyrir leik og buðu upp á góða dagskrá fyrir stuðningsmenn og var umgjörðin til fyrirmyndar.

Stuðningsmenn Vals fögnuðu jafnteflinu vel og innilega.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, óskaði eftir því í viðtali eftir fyrri leik liðanna í gær að fá tæplega þúsund manns í höllina en varð þó ekki að ósk sinni í dag.

Viðtöl

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira