Innlent

Ó­sáttir kennarar yfir­gefa skólana

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kennarar í Sunnulækjarskóla á Selfossi gengu út.
Kennarar í Sunnulækjarskóla á Selfossi gengu út.

Kennarar í fjölmörgum grunnskólum landsins lögðu niður störf klukkan tólf á hádegi. Formaður félags grunnskólakennara segir ekki um skipulagða aðgerð á vegum félagsins að ræða. 

Fréttastofa náði tali af Hermanni Erni Kristjánssyni skólastjóra í Sunnlækjarskóla á Selfossi um klukkan hálf eitt. Hann sagðist telja að trúnaðarmenn á landsvísu hefðu tilkynnt kennurum að leggja niður störf klukkan tólf.

Um leið og Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari tilkynnti að sveitarfélögin hefðu hafnað innanhússtillögu klukkan tólf hafi borist tölvupóstur til Sunnulækjarskóla frá trúnaðarmanni kennara við skólann um að kennarar við skólann leggðu niður störf.

„En mér skilst að þetta sé á landsvísu, ekki bara hér.“

Mjöll Matthíasdóttir, formaður félags grunnskólakennari, segir í samtali við Vísi að ekki sé um skipulagðar aðgerðir að ræða. 

Tölvupóstur hafi verið sendur á foreldra og þeir hvattir til að sækja börn á yngstu stigum skólans, frá fyrsta upp í fjórða bekk. Skólastjóri og aðrir stjórnendur utan Kennarasambands Íslands sinni nauðsynlegri gæslu þeirra barna sem ekki geti farið heim til sín.

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að kennarar í Vallaskóla í Árborg og Álfhólsskóla og Hörðuvallaskóla í Kópavogi hafi einnig gengið út. Þá hefur fréttastofa náð í nokkra grunnskóla þar sem skólastjórar komu af fjöllum og enginn hefði gengið út.

Fréttin er í vinnslu en fylgst er með gangi mála í vaktinni hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×