Fótbolti

Dag­ný byrjar á sama stað og hún endaði síðast

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu á síðasta Evrópumóti en nú er annað Evrópumót framundan.
Dagný Brynjarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu á síðasta Evrópumóti en nú er annað Evrópumót framundan. Getty/Alex Pantling

Dagný Brynjarsdóttir er í byrjunarliði Íslands sem mætir Sviss í dag í Þjóðadeildinni en þetta er fyrsti leikurinn í nýjustu útgáfu af keppninni. Þorsteinn Halldórsson hefur gefið út byrjunarliðið sitt fyrir leikinn sem hefst nú klukkan 18.00.

Þorsteinn tekur fimm nýja leikmenn inn í byrjunarlið sitt frá síðasta leik. Einn af þessu nýju leikmönnum er einmitt Dagný Brynjarsdóttir sem hefur verið í barneignarleyfi.

Dagný hefur verið frá í rúma 22 mánuði en hún eignaðist sitt annað barn 7. febrúar í fyrra. Þetta verður landsleikur hennar númer 114.

Svo skemmtilega vill til að síðasti landsleikur hennar fyrir 682 dögum fór fram á sama leikvelli og leikurinn í kvöld.

Dagný var þá í byrjunarliðinu í 2-1 sigri á Sviss á Letzigrund leikvanginum í Zürich.

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, gerir fimm breytingar á liði sínu í síðasta leik sem var tapleikur á móti Dönum í desember á síðasta ári.

Auk Dagnýjar koma inn í byrjunarliðið Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Guðrún Arnardóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Emilía Kiær Ásgeirsdóttir.

Sex halda sæti sínu í byrjunarliðinu eða þær Glódís Perla Viggósdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Alexandra Jóhannsdóttir, Hlín Eiríksdóttir, Sædís Rún Heiðarsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir.

Þær sem detta út eru markvörðurinn Fanney Inga Birkisdóttir en auk hennar halda þær Selma Sól Magnúsdóttir, Diljá Ýr Zomers, Katla Tryggvadóttir og Hafrún Rakel Halldórsdóttir ekki sæti sínu í byrjunarliðinu.

  • Byrjunarlið Íslands á móti Sviss:

  • Cecilía Rán Rúnarsdóttir
  • Glódís Perla Viggósdóttir
  • Guðrún Arnardóttir
  • Ingibjörg Sigurðardóttir
  • Sædís Rún Heiðarsdóttir
  • Alexandra Jóhannsdóttir
  • Dagný Brynjarsdóttir
  • Karólína Lea Vilhjálmsdóttir
  • Sveindís Jane Jónsdóttir
  • Emilía Kiær Ásgeirsdóttir
  • Hlín Eiríksdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×