Handbolti

Elliði frá­bær þegar Gum­mers­bach valtaði yfir Ljónin frá Löwen

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elliði Snær Viðarsson átti stórleik fyrir Gummersbach í dag.
Elliði Snær Viðarsson átti stórleik fyrir Gummersbach í dag. VÍSIR/VILHELM

Gummersbach vann í kvöld stórsigur á Rhein-Neckar Löwen í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld. Elliði Snær Viðarsson átti stórleik fyrir Gummersbach.

Gummersbach var í 11. sæti úrvalsdeildarinnar fyrir leikinn í dag og var fimm stigum á eftir Rhein-Neckar Löwen sem sat í 7. sæti.

Jafnt var á með liðunum í byrjun en Gummersbach skoraði sjö af síðustu níu mörkum fyrri hálfleiks og breytti þá stöðunni úr 10-9 í 17-11. Elliði Snær var lykilmaður í þessum frábæra kafla Gummersbach því hann skoraði fjögur mörk í röð og var að spila afar vel.

Í upphafi síðari hálfleiks tóku heimamenn svo algjörlega yfirhöndina. Þeir byrjuðu hálfleikinn á 8-2 kafla og eftir tæplega tíu mínútna leik í síðari hálfleik var staðan orðin 25-13. Gummersbach var þá búið að skora fimmtán mörk gegn fjórum á mínútunum fyrir og eftir leikhléið.

Eftir þetta var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. Munurinn varð aldrei minni en átta mörk og Gummersbach fagnaði að lokum 36-25 sigri.

Elliði Snær átti frábæran leik fyrir heimaliðið í dag. Hann skoraði átta mörk úr átta skotum og var næst markahæstur hjá liði Gummersbach. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×