Skoðun

Ás­laug Arna - minn for­maður

Katrín Atladóttir skrifar

Ég kom fyrst inn í starf Sjálfstæðisflokksins þegar ég tók sæti á lista flokksins fyrir þingkosningar 2016. Á fyrsta viðburði í Valhöll tók Áslaug Arna á móti mér og bauð mig velkomna. Ég hafði fylgst með henni og hennar baráttu í gegnum tíðina, en þekkti hana ekki. Hún leiddi mig í gegnum starfið, kynnti mig fyrir fólki og menningunni og hefur verið góð vinkona síðan.

Þegar ég varð borgarfulltrúi flokksins þá sátum við marga fundi saman. Það er unun að fylgjast með henni vinna. Hún er skipulögð, eldklár og með skýra framtíðarsýn og markmið fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Ísland. Hún vill Sjálfstæðisflokk sem stendur traustur á sínum grunngildum: Frelsi einstaklingsins, minna ríkisvald og öflugt atvinnulíf.

Þessi skýra framtíðarsýn skilar sér líka í mörgum verkefnum hennar sem þingmaður og ráðherra. Hún nefnilega lætur verkin tala. Ég hef aldrei séð aðra eins hamhleypu til verka enda virðist hún hafa fleiri tíma í sólarhringnum en við hin. Hún hefur komið í gegn fjölda breytinga til að einfalda líf fólks og rekstarumhverfi fyrirtækja. Hún hefur verið í fararbroddi í stafrænum lausnum, nýsköpun og gervigreind. Áslaug Arna gaf út rit um verklag HVÍN sem veitti mér og fleirum mikinn innblástur. Þar sýndi hún að hún þorir að brjóta upp kerfið og nútímavæða stjórnsýsluna. Ánægjumælingar sýna mestu ánægju starfsfólks í HVÍN af öllum ráðuneytum.

Það er einmitt verkefnið sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur frammi fyrir, að velja sér leiðtoga sem þorir að breyta og stjórna, hefur kraft til þess að leiða flokkinn inn í nýja tíma og fá fólk með sér í verkefnið.

Ef það er einhver sem ég treysti til að hafa kraft og kjark til að leiða Sjálfstæðisflokkinn inn í framtíðina þá er það Áslaug Arna.

Höfundur er stjórnandi og fyrrverandi borgarfulltrúi.




Skoðun

Sjá meira


×