Upp­gjörið: Stjarnan - Grinda­vík 77-64 | Slökktu á gestunum í seinni hálf­leik

Siggeir Ævarsson skrifar
Stjarnan sýndi klærnar í seinni.
Stjarnan sýndi klærnar í seinni. Vísir/Diego

Stjarnan og Grindavík eigast við í annað sinn á skömmum tíma, nú þegar búið er að skipta Bónus-deild kvenna í körfubolta í tvo hluta. Liðin leika í neðri hlutanum.

Stjarnan og Grindavík mættust í kvöld í Bónus-deild kvenna en aðeins er vika liðin síðan að liðin mættust síðast, einmitt hér í Garðabæ. Þar fóru Grindvíkingar með sigur af hólmi í leik sem var ekki mikið fyrir augað en til allrar guðslukku fyrir áhorfendur voru liðin mun betur innstillt í kvöld.

Stjörnukonur fóru vel af stað og skoruðu úr þremur af sínum fyrstu skotum, en Ólafur þjálfari talaði um það fyrir leik að hans konur þyrftu fyrst og fremst að hitta úr skotunum sínum í kvöld, öfugt við síðasta leik.

Grindvíkingar létu þessa byrjun þó ekki slá sig út af laginu og leiddu eftir fyrsta leikhluta með tveimur stigum en síðasta karfa leikhlutans var þristur frá fyrirliðanum Huldu Björk, staðan 22-24.

Gestirnir náðu upp örlitlu forskoti í öðrum leikhluta og voru komnar átta stigum yfir í stöðunni 33-41. Stjörnukonur skoruðu svo síðustu sjö stig leikhlutans og því munaði aðeins einu stigi í hálfleik, staðan 40-41.

Sóknarleikur Stjörnunnar gekk eins og vel smurð vél í þriðja leikhluta meðan að sóknarleikur Grindvíkinga minnti helst á vél í gömlum Rússajeppa sem hafði staðið óhreyfður út í mýri síðan á síðustu öld, en Grindavík skoraði aðeins sjö stig í leikhlutanum gegn 20 hjá Stjörnunni. Heimakonur voru því með pálmann í höndunum fyrir lokaátökin og leiddu 60-48.

Fjórði leikhluti var svo í raun bara meira af því sama. Mjög stirður og stífur sóknarleikur hjá gestunum meðan Stjörnukonur áttu mjög náðugar stundir í sókninni og unnu að lokum sanngjarnan 77-64 sigur.

Atvik leiksins

Kaflinn undir lok fyrri hálfleiks, þegar Stjarnan breytti stöðunni úr 33-41 í 40-41, virtist koma Grindvíkingum algjörlega úr jafnvægi. Það einfaldlega fraus allt sóknarlega hjá Grindavík enda var Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur „orðlaus“ yfir seinni hálfleiknum, svo vitnað sé beint í hann.

Stjörnur og skúrkar

Stjarnan fékk frábæra frammistöðu frá þeim Katarzyna Trzeciak (Kasia), Denia Davis-Stewart (Stixx), Ana Clara Paz og Diljá Ögn Lárusdóttur. Þær skiptust á að skora stig í bunkum og enduðu á að skora 71 af 77 stigum liðsins og skiptu þeim nokkuð systurlega á milli sín. Stixx bætti svo 15 fráköstum við þau 18 stig sem hún skoraði.

Erlendir leikmenn Grindavíkur voru heillum horfnir í kvöld, þá sérstaklega Daisha Bradford sem var eins og skugginn af sjálfri sér og skoraði aðeins sex stig. Hún gaf að vísu tíu stoðsendingar en ógnaði lítið sóknarlega og Grindvíkingar mega einfaldlega ekki við því.

Dómararnir

Jakob Árni Ísleifsson, Birgir Örn Hjörvarsson og Aron Rúnarsson voru á flautunum í kvöld og stóðu sig með prýði. Þeir flautuðu minna frekar en meira og leyfðu leiknum að fljóta og leikmönnum að takast á og þannig á það að vera.

Stemming og umgjörð

Aftur var blásið til leiks í Garðabænum klukkan 18:15 á virkum degi. Bæði áhorfendur og sjálfboðaliðar voru rétt að tínast í hús korter í leik en það stoppaði þó ekki Stjörnufólk í að manna sjoppuna og fylla hana af ilmandi flatbökum.

Mætingin í stúkuna hefði þó sannarlega mátt vera betri og var stemmingin þar í takt við mætinguna, dræm.

Viðtöl

Þorleifur: „Þetta var bara ömurlegt“

Lalli ætlar að horfa inn á við og leggja dag við nótt til að reyna að finna lausnirVísir/Vilhelm

Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, átti engin svör þegar hann var spurður hvað hefði eiginlega gerst í seinni hálfleik hjá hans liði. Honum varð þó tíðrætt um að frammistaðan hefði verið léleg.

„Bara eiginlega orðlaus. Er ekki með svör við því hvað gerðist. Hik og eitthvað svona vesen. Þetta var bara lélegt.“

Þorleifur tók nokkur leikhlé eftir því sem Stjarnan náði betri tökum á leiknum en þau virtust ekki skila neinu.

„Bara eitthvað að reyna að biðja um meiri orku og að bíta aðeins frá sér. Það var ekki eitthvað sem maður gat breytt mikið á þessum tímapunkti. Kannski bara fyrst og síðast að Stjarnan náði að ýta okkur úr öllu sem við vorum að gera. Bara mjög lélegt hjá okkur.“

Daisha Bradford, sem hefur verið prímusmótor í sóknarleik Grindavíkur undanfarið átti ekki góðan leik í kvöld. Þorleifur var spurður hvort hún væri mögulega að glíma við meiðsli en sagði svo ekki vera.

„Bara þessi gamli góði slæmi dagur og ekkert við því að segja. Ef hún á slæman dag þá verða aðrar að stíga upp en var þetta ekki bara slæmur dagur hjá öllum. Nema kannski Mariana sem er bara hörkutól og heldur áfram þó svo að hún sé ekki að skora mikið. En þetta var bara ömurlegt.“

Þetta var ekki góður leikur fyrir Grindavík að tapa en nú fer hver að verða síðastur að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni.

„Klárlega ekki og við ætluðum bara að vinna alla leikina en mætum ekki tilbúnar. Ég veit ekki hvort við séum að halda að þetta sé eitthvað auðvelt og við séum eitthvað stærri en við erum. Við þurfum að sanna það að við ætlum að taka þátt og erum ekki að gera það með þessum leik. Það er eins og við nennum þessu ekki og séum bara að bíða eftir því að fara í eitthvað helvítis sumarfrí.“

En þú ert ekkert á leiðinni í sumarfrí er það?

„Það er ekki planið hjá mér. Mitt hlutverk er náttúrulega að undirbúa æfingar og undirbúa þær fyrir leiki þar. Svo verða þær náttúrulega að gera sitt á vellinum. Ég þarf að líta inn á við, er það eitthvað sem ég get breytt sem ég er búinn að reyna mjög oft í vetur og hef þurft að gera. Það hefur gengið svona misvel. Upp á síðkastið fannst mér þetta vera að koma en þessi leikur sýnir allt annað þannig að maður þarf að taka „all nighter“ á þetta enn eina ferðina og reyna að finna eitthvað út úr þessu.“

Stixx: „Þetta var persónulegt“

Denia Davis-Stewart var öflug í kvöldVísir/Pawel Cieslikiewicz

Denia Davis-Stewart, eða Stixx eins og hún er oftast kölluð, átti frábæran leik í kvöld en það var ljóst að þessi leikur hafði persónulega þýðingu fyrir hana og Stjörnuliðið eftir tapið í síðasta leik.

„Þetta var persónulegt, engin spurning, það er alveg á hreinu. Við spiluðum ekki eins og við erum vanar í síðasta leik og okkur fannst við þurfa að mæta til leiks í kvöld og gera yfirlýsingu úr okkar frammistöðu.“

Hún sagði að það hefðu allir verið sammála um það í hálfleik að byggja ofan á lokakaflann í fyrri og taka fótinn ekki af bensíngjöfinni.

„Við eigum alltaf sama samtalið í hálfleik um að andstæðingarnar muni mæta brjálaðir til leiks í seinni hálfleik svo að við urðum að bæta enn meira í og ekki taka fótinn af bensínsgjöfinni.“

Það voru æfingar vikunnar sem lögðu grunninn að sigrinum að hennar mati.

„Á öllum æfingum í vikunni höfum við verið að einbeita okkur að „transition“ leiknum og að keyra upp hraðann og vera ákveðnari. Einnig að vera þéttari sem lið og tala betur saman. Það koma alltaf sveiflur í öllum leikjum en svo lengi sem við spilum saman sem lið og höldum áfram þá er það það eina sem skiptir máli þegar upp er staðið.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira