Innlent

Með tuttugu kíló af hassi og mariju­ana í far­angrinum

Atli Ísleifsson skrifar
Fólkið flutti efnin til landsins með flugi í desember síðastliðnum.
Fólkið flutti efnin til landsins með flugi í desember síðastliðnum. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karl og konu í 22 mánaða fangelsi fyrir stórfelldan innflutning á maríjuana og hassi til landsins. Fólkið flutti efnin til landsins í farangurstöskum sínum með flugi til landsins í desember síðastliðnum.

Í dómnum kemur fram að fólkið hafi verið ákært fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, en þau komu til landsins með flugi 16. desember síðastliðinn. Í farangurstöskum þeirra fundust 9,2 kíló af maríjuana og 13 kíló af hassi sem talin voru ætluð til söludreifingar hér á landi.

Karlinn og konan játúðu brot sín skýlaust, en í dómi segir að þau hafi ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi svo kunnugt sé. Ekki verði ráðið af gögnum að þau hafi verið eigendur efnanna, heldur hafi þau samþykkt að flytja efnin til landsins gegn greiðslu.

Dómari mat hæfilega refsingu vera 22 mánaða fangelsi, en að fresta eigi fullnustu tuttugu af þeim og skal sá hluti refsingarinnar niður falla að þremur árum liðnum, haldi þau almennt skilorð. Til frádráttar refsingunni kemur svo gæsluvarðhald sem þau sættu frá komunni til landsins.

Ákærðu var sömuleiðis gert að greiða verjendum sínum rúma milljón króna hvor í þóknun og aksturskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×