Í tilkynningu sem Páfagarður sendi frá sér í gærkvöldi segir að ástand hans hafi versnað eftir að hann fékk berkjukrampa og fór í framhaldinu að kasta upp. Hann hafi stuðst við súrefnisbúnað síðan.
Guardian hefur eftir embættismanni Páfagarðs að ástand Páfans hafi síðar batnað og einn til tveir sólarhringar séu þar til læknar geti sagt til um hvaða áhrif atvikið mun hafa á heilsu Frans í framhaldinu.
Páfagarður sendi frá sér aðra tilkynningu í morgun þar sem segir að nóttin hafi verið friðsæl hjá páfanum, sem dvelur enn á sjúkrahúsi. Ekki er vitað hversu löng sjúkrahúsdvöl hans verður en fyrir liggur að hann verður fjarverandi fyrstu guðsþjónustu lönguföstu á miðvikudaginn.