Sport

FH-ingar bikar­meistarar og Erna Sól­ey með móts­met

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erna Sóley Gunnarsdóttir setti mótsmet í kúluvarpi.
Erna Sóley Gunnarsdóttir setti mótsmet í kúluvarpi. afp/Anne-Christine POUJOULAT

Ólympíufarinn Erna Sóley Gunnarsdóttir setti mótsmet í bikarkeppni Frjálsíþróttasambandsins í Kaplakrika í gær. FH-ingar stóðu uppi sem sigurvegarar á heimavelli.

FH fékk samtals 145 stig, sjö stigum meira en ÍR. Sameiginlegt lið Fjölnis og UMSS varð svo í 3. sæti með 123 stig. Sameiginlega lið Fjölnis og UMSS hrósaði sigri í karlaflokki með 76 stig en kvennamegin varð FH hlutskarpast með 76 stig.

Erna Sóley setti mótsmet í kúluvarpi með kasti upp á 17,17 metra. Alls voru keppendur með 57 persónulegar bætingar á mótinu.

Eir Chang Hlésdóttir, sem sló 21 árs gamalt Íslandsmet í tvö hundruð metra hlaupi um síðustu helgi, hrósaði sigri í fjögur hundruð metra hlaupi á 55,32 sekúndum.

Körfuboltakonan fyrrverandi, Ísold Sævarsdóttir, varð önnur í fjögur hundruð metra hlaupinu á besta tíma sem hún hefur hlaupið á, 55,83 sekúndum. Ísold vann sigur í sextíu metra grindahlaupi kvenna á 8,79 sekúndum.

Daníel Ingi Egilsson varð hlutskarpastur í langstökki karla með stökki upp á 7,16 metra. Irma Gunnarsdóttir vann langstökk kvenna með 6,05 metra stökki. Hún vann einnig sigur í þrístökki með stökki upp á 12,91 meter.

Daníel Ingi Egilsson er okkar fremsti langstökkvari.frí/hlín

Öll úrslit mótsins má finna með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×